25. maí 2007

Nýjar tölur

Freyr var mældur í bak og fyrir í morgun, 7,3 kg, 65,5 cm langur og höfuðmál 44 cm. Já það teygist á honum í allar áttir.

18. maí 2007

Tvö ein í kotinu

Svenni var að fara suður á landsþing björgunarsveitanna í morgun. Við Freyr erum því tvö ein en komum nú til með að plumma okkur þótt að við söknum hans. Strákurinn okkar breytist þroskast mjög hratt núna, það er allt að gerast bara enda verður hann fjögurra mánaða á þriðjudaginn. Hann er farinn að grípa í alla hluti og stinga upp í sig, þannig að allt í einu þarf maður að passa sig á honum þegar hann situr í fanginu á manni við borðið. Freyr er ekki bara líkur pabba sínum í útliti heldur sýnist mér stefna í að hann verði algjörlega takkaóður eins og Svenni. Hann á dót með dýratökkum sem heyrast dýrahljóð í þegar hann ýtir á þá og var ekki lengi að átta sig á þessu. Hann ýtir og ýtir eins og óður maður. Eins er hann farinn að ráðast á tölvuna þegar hann sér hana og teigir sig fram til að ýta á takkana af mikill áfergju. Freyr dafnar líka mjög vel, hann er orðinn stór og þungur og farinn að síga vel í svo að mamman reynir að komast í sund amk þrisvar í viku til að styrkja bakið. Hann er líka ofsalega glaður og líflegur og bara alveg frábær ;-) já já meiri að segja ég er orðin pínu væmin ég viðurkenni það.
Núna liggur Freyr útí vagni í veðri sem ég voga mér ekki útí sjálf, algjöru vetrarveðri rok og slydda. Honum líður hins vegar mjög vel þarna úti, vona ég. Að vísu var ekki hægt að hafa hlustunartækið úti því það fór stöðugt í gang vegna látanna í veðrinu.
Við Daði erum að fara í útskrift VA á morgun. Okkur var boðið ásamt þeim sem útskrifuðust um leið (þ.á.m. Svenni og Bryndís), af því tilefni að við tilheyrum fyrsta hópnum sem var alfarið útskrifaður frá VA án aðstoðar frá ME. Það eru 10 ár síðan, það er nú ekkert svo mikið er það? Daði ætlar að halda ræðu eins og hann gerði fyrir 10 árum en ekki sömu ræðuna þó. Við reyndum að setja saman einhverja punkta um daginn en mundum reyndar ekkert mjög mikið en vorum sammála um að það hafi bara verið rosalega gaman á þessum árum. Mér fannst skólinn meiri að segja svo fínn að ég ákvað að fara að vinna þar sjálf og líkar það rosalega vel. Hlakka bara til að fara að vinna hálfan daginn í haust.
Jæja elskurnar læt þetta duga, bráðlega koma inn myndir sem eru m.a. teknar á nýju starfrænu EOS 400 myndavélina hans pabba, svaka græja.

5. maí 2007

Horfið er nú sumarið og sólin

Já það hefur verið einmuna veðurblíða eins og sést á þeim myndum sem Svenni setti inn. Ég á nú kannski eftir að bæta fleirum inn, mér finnst hann alltaf svolítið spar á myndirnar ;-) En eins og sumir austfirðingar vita (ekki Esk- og Reyðfirðingar þó) var heil vika þar sem hitastigið fór ekki niður fyrir 16 gráður. Freyr var svolitla stund að átta sig á þessu en síðustu dagana var hann farinn að geta sofið á samfellunni í vagninum sínum og haft opin augun úti en þó aðeins ef hann var í skugga. Ég (Hrönn) sem átti að vera læra gat auðvitað ekki hugsað mér það og var svona í laumi að vonast til þess að veðrið versnaði því að lokaskil á heimaprófi nálguðust óðum. Það kom líka að því að það snarkólnaði og núna erum við farin að klæða strákinn upp í flísgallann sinn og allt er orðið eins og hann hefur átt að venjast meiri hluta ævi sinnar.

Freyr breytist mjög hratt þessa dagana. Hann er orðinn flinkur að liggja á maganum og velti sér um daginn yfir á bakið alveg óvart þó. Hann tók svakalegan vaxtarkipp stuttu eftir að hann var mældur og hefur nú lengst um marga cm á örfáum dögum. Hann er alltaf mjög ræðinn. Æfir ýmis hljóð og dundar sér heillengi við að æfa kvarthljóðin vel áður en hann velur besta kvartið til að nota í það og það skiptið. En ósköp er hann nú þægilegur drengurinn, kvartar bara ef hann vill félagsskap og er svangur. Hann sofnaði í heila viku kl. fimm mín í níu en er nú orðinn viltur og á það til að sofna bæði 20 mín í og yfir níu. Fyrsti lúrinn er oftast 6-9 tímar sem er bara lúxus. Eina vandamálið er því að það er bara mamma sem má svæfa hann. Pabbinn er skemmtilegur mest allan daginn, það vantar ekki en eftir klukkan átta á kvöldin verður hann alveg ómögulegur og ekki að ræða það að vera hjá honum. Við reynum að taka á þessu og vonumst svo bara til að þetta vaxi sem fyrst af honum.
Eins og glöggir mynskoðendur sáu eru svalirnar að rísa hjá okkur, verst að sumarið er búið ;-) Ég hugsa að svalirnar verði bara orðnar nothæfar á þriðjudag, en Svenni ætlar að leggja ,,gólfið" í þær um helgina. Eins er verið að steypa veggi til að halda uppi jarðveginum þannig að það er að lifna yfir framkvæmdunum á nýjan leik.
Segi þetta gott af lífinu á Þiljuvöllum 9 en gaman væri að þið sem lesið en hafið aldrei skrifað comment kvittið, ekki vera feimnar elskurnar.