29. ágúst 2006

...og meira parket


Parketlögðum hálft herbergi (hinn helmingurinn var búinn áður) og holið niðri um helgina. Grímur mætti svo á sunnudaginn og setti upp tvenna dyrakarma og tilheyrandi hurðir. Við fórum aftur á móti í afmælisveislu á Vopnafjörð til mömmu á sunnudaginn.

22. ágúst 2006

Parket komið á stofuna


Um helgina lögðum við hjónaleysin parketið á stofuna, það gekk bara ágætlega - við höfðum greinilega reiknað mjög nákvæmlega út hvað við þurftum mikið því að afgangurinn var innan við hálfur planki !
Gólflistarnir koma svo vonandi í dag og ætla ég að byrja að koma þeim niður í kvöld.

Næstu skref eru svo parketlögn á neðri hæðinni, í herbergjum og holi - vonandi komumst við eitthvað áfram með það í vikunni.

21. ágúst 2006

Sófinn sóttur úr vetrardvölinni


Hér má sjá þegar sófinn var sóttur frá Afa fyrir innflutningsteitið.
Myndir úr teitinu má sjá myndasíðunni

18. ágúst 2006

Hvíld eftir innflutningspartýið

Innflutningspartýið fór vel fram, haldin var æsispennandi bjórsmökkunarkeppni þar sem miklir bjórspekingar, auk annarra sem höfðu minni trú á bjórviti sínu, leiddu sam krúsir sínar. Þetta endaði þannig að hún Auður sigraði þetta, náði 5 réttum af 15 (minnir mig).

Við hjónaleysin skelltum okkur svo í vikuferð til Tyrklands til að hvíla okkur á húsbyggingunni, það var voðalega ljúft (kannski aðeins í heitara lagi en alveg viðráðanlegt).

Á meðan við vorum úti þá tók Grímur sig til og stækkaði dyraopið inn í hjónaherbergið, það er eina dyraopið í steyptum vegg hjá okkur (fyrir utan útidyrnar í þvottahúsinu) og það var af einhverjum ástæðum aðeins og lágt (gólfið of hátt). Við höfðum nú hugsað okkur að minnka hurðina bara aðeins að ofan og neðan en Grími líkaði sú ráðstöfun illa, hann laumaðist því til þess að brjóta úr dyraopinu meðan við hvíldum okkur í Tyrklandi.

Við erum svo flutt inn að nafninu til, vegna gestagangs á Marbakkanum um verslunarmannahelgina þá hröktumst við í okkar eigið hús og höfum verið þar síðan (ef frá er talin Tyrklandsförin). Ekki erum við nú búin að flytja mikið af búslóðinni til okkar enda er húsið vart tilbúið fyrir svoleiðis. Við unum okkur þó ágætlega í einu herbergi enda er eldhúsið klárt, gestabaðið, sturtuklefinn og baðkarið.

En... það er víst nóg eftir og við verðum víst ekki verkefnalaus á næstunni.

4. ágúst 2006

Flís við rass

Klósettkassinn á efri hæðinni var flísalagður í gær, stefnt er að því að fúga hann í kvöld og setja svo upp klósettskálina (eins gott að hafa það í lagi fyrir partý).

Annars tafðist flísa- og parketlögn um nokkra daga vegna klúðurs hjá Landflutningum. Við erum búin að hringja daglega í Húsasmiðjuna á Egilsstöðum til að reka á eftir flísunum og parketinu á eldhúsið, þeir sögðust svo hafa skilað því af sér, til Landflutninga á mánudaginn. Ekkert barst þó til okkar. Við grunuðum auðvitað Húsasmiðjuna um að hafa ekki komið þessu frá sér (af fenginni reynslu) og hringdum enn og aftur en þeir stóðu fast á því að hafa komið þessu á bíl. Á miðvikudag (og enn ekkert komið) hringdum við svo í Landflutninga á Egilsstöðum, þá voru þeir búnir að tína brettinu en lofuðust til að leita. Þeir fundu það svo að lokum í Reykjavík !!! höfðu skellt því upp í vitlausan bíl á Egilsstöðum (þessir Héraðsmenn, ég segi ekki annað ;-). En þetta skilaði sér loksins í gær og vonandi náum við að koma pleisinu í partýhæft ástand.

Grímur er búinn að vera að setja upp innihurðir og nú eru komnar hurðir fyrir klósettdyrnar uppi og niðri auk eins herbergis, þannig að nú er að verða íbúðarhæft.

Parketið á eldhúsið fer á í dag, og þá getum við sett ísskápinn á sinn stað (til að kæla bjórinn).

Svo er mæting í partý á laugardagskvöldið kl. 21.

31. júlí 2006

Parketlögn hafin


Við höfum verið iðin við kolann síðustu daga.

Eldhúsinnréttingin er komin upp að undanskildum nokkrum skúffuframhliðum sem eru ekki enn komnar frá IKEA. Grímur er búinn að koma niður baðkarinu og er byrjaður á sturtuklefanum. Búið er að leggja rafmagn að og tengja alla tengla í eldhúsi og einu herbergi. Um helgina parketlögðum við Hrönn eitt svefnherbergi og fataherbergið.
Við stefnum enn ótrauð að því að halda "innflutnings"partý um verslunarmannahelgina, ekki verður þó gerð krafa um að gestir fari úr skónum.
Von er á flísum og parketi í eldhúsið á dag eða morgun þannig að vonandi verður orðið partýhæft um næstu helgi.

11. júlí 2006

Innréttingavinna hafin

Málararnir kláruðu sinn skammt í gær, fullmáluðu loftin og grunnuðu veggina.
Innréttingarnar frá IKEA komu líka í gær og skrúfaði ég saman fyrsta skápinn í gærkvöldi. Það verður nóg að gera næstu daga, mála eina umferð á alla veggi og setja saman innréttingar. Svo ætla ég rétt að vona að pípararnir fari að standa við loforðin og komi að tengja gólfhitann.
Nú er sem sagt lokaspretturinn að hefjast, ég ætla mér að vera í fríi eftir hádegi og vinna í húsinu á fullu og svo er bara að vona að við getum staðið við loforðin um innflutningspartý um verzlunarmannahelgina.

Ég reyni að koma inn nýjum myndum fljótlega.

30. júní 2006

Sparslað og málað

Frekjan hún systir mín heimtaði frekari fréttir þannig að ég verð að verða við því.

Nýlegar myndir eru ekki tiltækar en hér kemur ein sem er ekki mjög gömul sem tekin er úr sunnverðri stofunni, eldhúsið er vinstra megin en hægra megin eru dyrnar úr andyrinu inn í stofuna.


Önnur mynd kemur svo hér af hnúfubak sem lék listir sínar fyrir okkur í björgunarsveitinni þegar við héldum fjölskyldudag í Hellisfirði á þjóðhátíðardaginn.


Af húsbyggingunni er það helst að frétta að allir milliveggir eru komnir upp og klæddir. Málararnir eru búnir að vera í nokkra daga að sparsla og munu þeir grunna veggi og mála loft, það ætti að klárast í næstu viku. Enn bíðum við eftir pípurum til að tengja gólfhitann og neysluvatnið en ég hef verið að draga rafmagnsvírana í og er það langt komið á neðri hæðinni en á efri hæðinni eru bara komnar "rússneskar ljósakrónur".

7. júní 2006

Erum flutt !

... ekki þó í nýja húsið, heldur til Gríms og Sýbillu. Íbúðin sem við vorum í á heimavist Verkmenntaskólans breytist á næstu dögum í hótel þannig að okkur var úthýst.
Nú er komin pressa á Grím að hjálpa okkur að klára svo hann losni við okkur út aftur.

Hákon er á fullu að vinna í húsinu, milliveggir eru langt komnir, efri hæðin ætti að klárast í dag eða á morgun. Þá er komið að málurunum á efri hæðinni, það þarf að sparsla og grunna þetta allt saman.

Set inn myndir bráðlega.

26. maí 2006

Og áfram með smjörið

Sælir lesendur góðir, maður er svo upptekinn í byggingu að maður má ekkert vera að því að setja eitthvað hér inn, en hér kemur eitthvað smávegis.

Nú er búið að leggja í gólfin á neðri hæðinni.

Hákon hefur svo verið að vinna hjá okkur við að gifsklæða útveggina


Sérfræðingarnir að sunnan (þeir sem reistu efri hæðina) eru svo mættir aftur og eru að klæða neðri hæðina að utan.


Við erum líka byrjuð að reisa milliveggjagrindur á neðri hæðinni og rafmagn og vatn er komið inn í húsið (alls ótengt ennþá reyndar en það er allt í vinnslu)

9. maí 2006

Ýmislegt hefur gerst síðan síðast

Afsakið hlé.

Ýmislegt hefur verið gert síðan ég reit síðast á þessa síðu. Við byrjuðum til dæmis að leggja rafmagnsrör og -dósir í steyptu veggina á neðri hæðinni. Einnig byrjuðum við á veggklæðningunni niðri.


Síðan var hafist handa við að leggja gólfhitalagnir (einangrunarmottur og rör) og nú í dag var svo "lagt í" (steypt ofan á) gólfið á efri hæðinni.

12. apríl 2006

Loftklæðning og milliveggir




Páskafríið er nýtt til hins ítrasta til smíða og nú er búið að klæða loftið og slá upp milliveggjagrindum komnar upp á efri hæðinni.

23. mars 2006

Raflagnir og gifs í loft

Undanfarið höfum við verið að vinna við að setja upp raflagnadósir og rör. Á þriðjudaginn settum við svo fyrstu gifsplöturnar í loftið á bílskúrnum. Næstu verkefni eru áframhaldandi raflagnavinna og gifsklæðning í bílskúr.

10. mars 2006

Lagnagrind í loft




Það sem unnið hefur verið við síðustu daga er að koma fyrir lagnagrind í loftið. Það er langt komið og er þá næsta verk að ganga frá raflögnum í loftið.

Búið er að einangra allt og klæða loftið með rakavarnardúk (rakasperru).

Hér er mynd frá einangrunarvinnunni.

23. febrúar 2006

Innivinnan tekin við



Nú er innivinnan tekin við og þær stórstígu breytingar sem sést hafa á útliti hússins eru búnar í bili, nú erum við að einangra loftin á efri hæðinni og að klára svokallaða raflagnagrind innan á veggjunum.
Grímur og Bryndís hafa hjálpað okkur við einangrunarvinnuna.

13. febrúar 2006

Fokhelt

Nú er húsið orðið fokhelt, þvottahúshurðin fór á sinn stað fyrir helgina og bílskúrshurðin er orðin lokuð (enn er reyndar ekki hægt að opna hana með góðu móti, en það er í vinnslu).
Á laugardaginn týndum við svo allt lauslegt timbur saman og stöfluðum upp. Það ætti því ekkert að vera byggingarfulltrúanum að vanbúnaði að gefa út fokheldisvottorð.
Nú er innivinnan tekin við og ætlum við að reyna að sinna henni að miklu leyti sjálf - það mun koma í ljós hvernig það gengur. Næstu verkefni eru að ganga frá raflagnagrind á veggjum, einangra loftið og koma fyrir raflagnagrind þar líka.

8. febrúar 2006

Fullfrágengið að utan (efri hæðin)

Nú er efri hæðin orðin fullfrágengin að utan, bílskúrshurðin er komin í (að nafninu til) og Viðarsteinn ehf. búnir að ljúka sínu verki. Smiðirnir fara heim á morgun og þá er ég tekinn við stjórninni þarna.
Þvottahúshurðin verður svo vonandi sett í á næstu dögum og þá er húsið orðið fokhelt.

7. febrúar 2006

Að verða tilbúið að utan

Nú er efri hæðin að verða fullfrágengin að utan. Það klárast í vikunni.
Búið er að klæða allt þakið, það vantar reyndar enn þak á útskotið í stofunni (klárast í dag).
Þakkantur er kominn á 3/4 og þakrennur.
Klæðning er komin á alla efri hæðina nema upp í mæninn á suðurhliðinni og búið er að ganga frá listum í kringum flesta glugga og flest horn.