23. apríl 2007

Nýjustu tölur úr Norðausturkjördæmi

.... eru kannski ekki svo nýjar, síðan á föstudaginn. Freyr mældist í þriggja mánaða skoðun 6,45 kg og 62 cm - hann hefur því aðallega stækkað á þverveginn síðan síðasta mæling fór fram.

Annars er bara allt gott að frétta, móðirin hefur verið upptekin við lærdóminn síðustu vikur, kláraði ritgerð á föstudaginn og tók til að "heimapróf" á um helgina. Faðirinn dundar við "home improvement" þegar drengurinn sefur, gólflistar og gluggatjöld voru helstu verkefni helgarinnar. Svo er alltaf verið að hugsa um garðinn. Grjóthreinsun gengur hægt og örugglega (verður lokið síðla sumars 2015 með sama áframhaldi) en í gærkvöldi mætti Daði grár fyrir járnum með keðjusög og saxaði niður gömul tré sem voru neðan við lóðina, þau þóttu of gömul og lúin til að halda upp á þau lengur. Nú er sennilega eins gott að fara að koma niður nýjum trjám til að þetta verði ekki eins eyðilegt allt saman.

Við erum búin að panta okkur flugferð til Danmerkur í lok júní, nýtum okkur flug Iceland Express frá Egilsstöðum, það munar talsverðu að þurfa ekki að þvælast suður til þess eins að skreppa til Köben. Við verðum tæpan hálfan mánuð og stefnum auðvitað að því að heimsækja Jóhönnu og fjölsk.

19. apríl 2007

Nýjar myndir

Það eru komnar nýjar myndir m.a frá Ísafirði. Ath að við bættum einnig myndum inná milli í 2-3 mánaða albúmið.
Á morgun fer Freyr svo í þriggja mánaða skoðun.

13. apríl 2007

Ísafjarðarferð

Um páskana fór Freyr í útskriftarferð sína úr 1.bekk ferðalagaskólans. Við fjölskyldan lögð land undir fót og fórum til Ísafjarðar. Við nenntum ekki að keyra þetta en flugum í staðinn, með millilendingu í Reykjavík enda ekki annað í boði. Freyr tók þessu vafstri með jafnaðargeði og lét sér þetta vel líka. Við vorum svo í góðu yfirlæti yfir páskana og rúmlega það hjá Hörpu og Gunnari og var Kári sérstaklega ánægður með að fá "litla Frey" í heimsókn, hann var líka duglegur að fá Hrönn til að leika við sig. Við fórum svo aðeins á skíði og talsvert í göngutúra um Ísafjarðarbæ. Þátttaka okkar í "Rokkhátíð alþýðunnar" var frekar lítil, náðum víst lágpunktinum á henni, Mínus (sem voru full háværir og þungt rokkaðir fyrir okkar smekk) og biðinni eftir Blonde Redhead sem voru svo víst ekkert í sérlega góðum gír (við gáfumst reyndar upp á biðinni áður en við gátum upplifað það).

Freyr náði sér í sitt fyrsta kvef fyrir vestan og kræktu báðir foreldrar hans sér í það líka. Þeir kvörtuðu þó meira en sá stutti þó svo að það geti verið erfitt að sjúga þegar nefið er hálfstíflað. Foreldrarnir eru enn að ræskja sig og sjúga upp í nefið en Freyr virðist vera búinn að hrista þetta af sér.

Það var vægast sagt misviðrasamt á Ísafirði, eða réttara væri kannski að segja skjótviðrasamt því að það var ekki hægt að draga neina ályktun af því hvernig veðrið yrði næstu tímana af því að líta til veðurs. Síðasta daginn löbbuðum við t.d út á Eyri í smá rigningu en ekki miklum vindi, fórum svo á búðarölt og bakarísheimsóknir í sól og smá vindi, hugðumst labba heim seinnipartinn á móti vindinum sem hafði aukist en þar sem var þurrt töldum við það ekki koma að sök en við vorum ekki komin langt þegar fór að mígrigna með rokinu. Þá fundum við strætóstoppistöð og biðum þar í ca 20 mínútur og á þeim tíma hafði stytt upp, farið að snjóa, lægt, hvesst, birt til, dimmt yfir og sjálfsagt eitthvað fleira - en heim, inn í Fjörð, komumst við að lokum í grænum strætisvagni.

Hrönn er vís til með að skrifa eitthvað meira um þessa ferð - en ég lofa engu.