31. janúar 2007

Og fleirimyndir

Og mamman lifir

Ég vildi ekki vera að flækja málin með því að blogga barnablogg inná mína síðu (eða blogga þar nokkuð yfirhöfuð) þótt að Svenni sé alltaf að reyna að fá mig til að blogga þar.
Eins og komið hefur fram þá gengur allt voða vel hjá okkur. Þessi elska gerir lítið annað en að drekka og sofa og upp á síðkastið kúka nokkrum sinnum á dag enda safnaði hann í heila viku. Við njótum því lífsins í botn, ég sef til svona 10 hálf 11 á morgnanna á meðan að Svenni vinnur hér heima til 12. Ég byrja daginn alltaf á langri og góðri sturtu og nýt þess sko í botn ef ske kynni að dag einn verði það meira mál að geta skroppið svona frá.
Freyr tekur sér oftast hátt í klukkutíma til að drekka orðið, tæmir vandlega bæði brjóstinn ef hann er í stuði og steinrotast eftir það. Við treystum því á að hann muni dafna vel og ná fljótlega fæðingarþyngd sinni þannig að hann getir farið í smá göngutúra þegar vel viðrar.
Við vorum einmitt að panta okkur bason roma vagn í gær þannig að við erum tilbúin. Pöntuðum líka dúnkerrupoka frá Reyni langafa.
Freyr er sko búinn að fá fullt af flottum gjöfum, við förum í pósthúsið á hverjum degi, ekkert smá gaman. Við viljum þakka kærlega fyrir okkur en strákurinn fer að eiga góða blöndu af fötum fyrir allt fyrsta árið sitt.
Á morgun ætlar hún Hanna Sigga að koma og vigta pjakkinn, veit svo sem ekki hvað hún gerir meira, kannski er hún til í að skúra gólfið fyrir okkur.
jæja læt þetta duga í bil. Takk fyrir alla kveðjurnar og innlitin.

28. janúar 2007

Og hvað á barnið að heita ???

Eftir talsverðar bollaleggingar þá fannst okkur nafnið Freyr henta heimalingnum ágætlega. Hann mun heita fullu nafni Freyr Sveinsson Zoëga.
Nafninu tekur hann bara vel, er alveg sérlega stilltur og prúður þessa dagana, nú er hann farinn að taka hraustlega til matar síns af sérréttum "mjólkurbús mömmu" og rétt rumskar á nóttunni til að belgja sig út. Pabbinn þykir standa sig nokkuð vel í bleijuskiptum og naflahreinsunum - já og svo stendur handboltalandsliðið sig líka ágætlega í að hafa ofan fyrir foreldrunum í orlofinu.
Freyr litli var 2ja tíma gamall þegar hann horfði (reyndar sofandi) á sinn fyrsta handboltaleik (Ísland-Frakkland) og þykir ljóst að þessi nýji stuðningsmaður var það sem liðið vantaði.

25. janúar 2007

Komin heim með heimalinginn.

Nenntum ekki að hanga lengur á fæðingardeildinni og komum heim í gær. Það fer auðvitað dável um okkur í fína húsinu og sýnir sonurinn öllum fínu ljósunum sérlegan áhuga (pabbanum til mikillar ánægju). Sá stutti er bara nokkuð vær og sefur mikið (síst reyndar á nóttunni).

Hér eru svo nokkrar myndir í viðbót:

22. janúar 2007

Heimalingurinn

Í dag fjölgaði um einn íbúa á Þiljuvöllum 9 - strákur fæddist laust fyrir klukkan 15 að staðartíma. Fæðingin gekk bara nokkuð vel miðað við fyrsta barn (segja þeir sem hafa vit á því). Stráksi mældist 3,9kg (tæpar 16 merkur) og 51cm. Móður og barni heilsast vel - föðurnum heilsast líka ágætlega, takk fyrir að spyrja ;-)

Myndir:

18. janúar 2007

Beðið eftir fjölgun

Nú erum við aðallega í því að bíða eftir nýjum íbúa með lögheimili að Þiljuvöllum 9. ETA (Estimated Time of Arrival) er 23.jan þannig að þetta ætti nú að fara að styttast. Enn hægir á húsbyggingarframkvæmdum. Hjá mér er fullmikið að gera í vinnunni - ýmislegt sem ég þyrfti helst að klára áður en ég fer í feðraorlof, en það hefur allt sinn gang.
Helstu afrek á håndværker-sviðinu síðustu daga hafa verið uppsetningar á ljósum. Hrönn hélt saumaklúbb í síðustu viku og var mér sett fyrir það verkefni að klára að koma upp ljósunum í stofunni - þessar kéllingar þurfa nú að hafa góða lýsingu til að sjá til við saumaskapinn ;-) Þetta tók mig hátt í heilan vinnudag (sem allur var unninn kvöldið fyrir klúbbherlegheitin), enda eru samtals 12 ljós í loftinu á stofunni - og enn á eftir að setja upp 7 í viðbót en það er seinni tíma vandamál. Síðustu 2 kvöld hafa svo farið í að setja upp ljós á neðri hæðinni, í barnaherberginu og hjónaherberginu.
Auður er án efa afkastamest þeirra saumaklúbbskvenna í saumum og kom færandi hendi á dögunum með heimasaumað "stuðpúðasett" í barnarúmið og himnasæng sem var sett upp í gær þannig að nú er allt að verða tilbúið fyrir heimalinginn - takk Auður.
Hrönn er komin með það skjalfest að nú sé hún orðin fullkomlega "vanfær" og skilst mér þá að ég eigi að vera sveittur við að skúra og ryksuga alla daga (sem hún virðist hafa átt að vera að gera hingað til) - verkaskiptingin á heimilinu hefur nú sem betur fer ekki verið það skýr að þetta sé alveg nýtt fyrir mér.

2. janúar 2007

Gleðilegt nýtt ár.

Kæru lesendur, við óskum ykkur gleðilegs árs og þökkum fyrir liðnu árin.

Ýmislegt hefur drifið á daga okkar hjónaleysa á nýliðnu ári og þetta ár á eflaust eftir að verða enn viðburðaríkara. Húsbyggingin tók mestallan okkar tíma á árinu enda áorkaðist heilmikið á því sviðinu, hér kemur upptalning á því helsta:
  • Um áramótin 2005-2006: verið að ganga frá járnabindingu og lögnum í gólfplötu efri hæðarinnar.
  • 9.jan 2006: Gólfplata efri hæðar steypt.
  • 16.jan 2006: Veggeiningar efri hæðar settar upp.
  • 19.jan 2006: Flaggað þegar allar þaksperrur voru komnar upp, reisugilli 20.jan.
  • Byrjun febrúar: Efri hæðin fullfrágengin að utan.
  • Febrúar - mars: Loftið einangrað, gengið frá rakasperru og bílskúr klæddur með gifsi.
  • Apríl: Gengið frá lektum á veggi og loft efri hæðar, rafmagnsrör og dósir á báðum hæðum.
  • Fyrri hluti maí: Hitalagnir í gólf á báðum hæðum og lagt í gólfin.
  • Seinni hluti maí: Innveggir klæddir með gifsi/spónaplötum, neðri hæð klædd að utan.
  • Lok maí: Stigi á milli hæða settur upp.
  • Júní: pípulagnir, klósett sett upp, loft máluð og veggir grunnaðir.
  • Júlí: Veggir málaðir, sturtuklefa og baðkari komið fyrir, eldhúsinnrétting sett upp, rafmagn lagt víða, parket lagt á fyrsta herbergið
  • Byrjun ágúst: Klósettkassinn á efri hæðinni flísalagður og skálinni komið fyrir -> húsið orðið íbúðarhæft. Sváfum fyrstu nóttina í nýju húsi aðfararnótt 5.ágúst. Innflutningspartý 5.ágúst (verslunarmannahelgi).
  • Miður ágúst: Skruppum til Tyrklands í afslöppunarferð (kærkomin hvíld).
  • Lok ágúst: Parket lagt á stofu, eldhús, annað herbergi og hol, rafmagnsvinna víða.
  • September: Baðherbergið á neðri hæðinni tekið í notkun, garðurinn sléttaður, rafmagnsvinna.
  • Október: Andyri flísalagt, stofuhúsgögn sett upp, rafmagnsvinna.
  • Nóvember: Svefnherbergi parketlagt, nýtt hjónarúm keypt og við flytjum í hjónaherbergið, rafmagnsvinna, gólflistar og fleira.
  • Desember: Gólflistar, gerefti á efri hæð og almennur frágangur fyrir jólin.
Ýmislegt er nú enn eftir en það klárast nú vonandi flest á þessu ári. Stærsta verkefnið er garðurinn, honum fylgir að steypa vegg til að halda bílastæðinu uppi (jarðveginum) og uppsetning svala á suðvesturhlið hússins. Innandyra er þvottahúsið aðkallandi verkefni ásamt gólflistum, gereftum, parketi á geymsluherbergið, frágangi bílskúrs og ýmsum frágangsmálum. Þetta klárast nú ábyggilega aldrei allt saman en það grynnkar nú vonandi eitthvað á þessu.
Svo skulum við nú ekki gleyma áætlaðri fæðingu barns okkar nú seinnipartinn í janúar þannig að þetta ár verður örugglega ekkert rólegra en það síðasta.

Nýárskveðja
Svenni og Hrönn