Nú er langt um liðið síðan síðast, húsfrúin hefur líka tollað heima óvenju lengi. Við virðumst vera svo upptekin við að horfa á sjónvarpið þegar við erum bæði heima að ekki gefst tími fyrir blogg. Húsbóndinn kann aftur á móti ekki að kveikja sjálfur á sjónvarpinu þannig að þá er úr vöndu að ráða þegar frúin fer að heiman. Nú eru allir heima en áhugi á söngvakeppni framhaldsskólanna er misjafn.
Glöggir lesendur hafa e.t.v. rekið augun í nýtt myndaalbúm sem datt inn á dögunum. Þar má t.d. sjá að við höfum
farið á skíði
búið til snjóhús
skoðað furðudýrið á Skorrastað, og hest
dregið ömmur og frænkur á skíði
borðað páskaegg
fengið gesti
og margt fleira.
Freyr hefur verið nokkuð duglegur að ná sér í pestir, síðustu viku hefur hann verið með hita og eyrnabólgu en er kominn á pensilín og fer þetta vonandi að lagast ... og svo fer heilsufarið vonandi almennt batnandi með hækkandi sól og vori í lofti (sem lætur nú eitthvað bíða sér).
Aprílferð húsbóndans til New York ferð breyttist í maíferð til Reston, Virginia (sem er Garðabær Washington DC). Þar á að reyna að kenna honum við annan mann á þau tæki og tól sem hann hefur verið að nota í vinnunni síðust 4 ár - tími kominn til. Google Earth hefur verið notað til hins ítrasta til að kynnast aðstæðum á svæðinu og er búið að finna nákvæma loftmynd af námskeiðsstaðnum, hótelinu (ásamt sundlauginni og pottinum), hvíta húsinu og fleira tilheyrandi. Eins er búið að spotta út næstu Starbucks kaffihús, eþíópískan veitingastað (er ekki líklegt að maður fari svangur út af svoleiðis stað?) og ýmislegt fleira misgagnlegt - hápunktur ferðarinnar hingað til (að því gefnu að enn er mánuður í hana) er væntanleg skoðunarferð á Segway (tm) um Washington DC, meiri snilld fyrirfinnst varla!
Þau undur og stórmerki gerðust hér á dögunum að handriðið á stigapallinn barst í hús, ekki nema rúmum 13 mánuðum eftir að það var pantað, Dalkó með skjóta og góða þjónustu að vanda NNNNNNNNNNNOOOOOOOOOOOOOOOTTTTTTTTTTTTTTTT!!!!!!!!!!!!!!! Húsbóndinn hefur verið að brasa við það í dag að koma þessu á sinn stað, búið er að líma fótstykkið niður og nú verður spennandi að sjá hvort límkítti er nógu öflugt til að halda þessu.
Jæja, þá er söngvakeppnin búin og víst best að fara að hætta þessu bloggveseni, bölvað svínarí að Bændaskólinn skyldi ekki vinna þetta - þeir fengu ekki einu sinni verðlaun... andskotans Reykjavíkurpakk sem stjórnar þessu - ég legg til að landsbyggðin segi sig úr þessari keppni og haldi sína eigin!