24. janúar 2008

Það eru komnar inn afmælismyndir

Eins árs


Já, þá er drengurinn orðinn eins árs.

Við héldum 2 veislur, á sunnudaginn fyrir börnin og svo á þriðjudaginn, afmælisdaginn sjálfan fyrir ömmur og afa. Þetta heppnaðist bara í alla staði vel, drengurinn fékk fullt af góðum gjöfum og ég held að flestir hafi fengið nægju sína af bakkelsi.

Annars er það helst að frétta af stráknum að nú æfir hann sig stíft að ganga og er bara að verða nokkuð lunkinn við það. Hann er farinn að velja það frekar að labba styttri leiðir en að skríða svo þetta er allt að koma. 2 tennur bættust við rétt tímanlega fyrir afmælið svo nú eru þær orðnar 4, 2 í neðri góm og 2 í efri góm.

Í kvöld ætlar mamman svo að stinga okkur feðga af til að fara í starfsþjálfun til Hafnar í Hornafirði ! Þetta er hluti af náms- og starfsráðgjafanáminu en mér finnst þetta alveg ótrúlegt að hægt sé að bjóða mönnum upp á þetta, ég sé fyrir mér að Reykvíkingar myndu láta bjóða sér að fara til Akureyrar í starfsþjálfun! En það virðist vera frekar fátæklegt úrval hér fyrir austan af fyrirtækjum og/eða stofnunum sem geta tekið að sér nema í þessu fagi. En við fáum nú vonandi húsmóðurina aftur heim annað kvöld.

Í síðustu viku var dagmömmuvesen á okkur, dóttir dagmömmunnar veiktist og var "sjoppunni" lokað á meðan, við náðum þó að greiða úr því með hjálp fjölskyldu og vina. Þessa vikuna er Freyr svo búinn að vera til 4 á daginn hjá dagmömmu og virðist það ganga ágætlega.

Setti inn myndir um daginn frá "stúdíó"myndatöku af Frey í desember, það raðast aðeins aftar en nýjustu myndirnar í röðina en eru margar hverjar alveg þess virði að skoða þær.

10. janúar 2008

Húskofarnir í Reykjavík

... og fyrst ég er kominn í gírinn, 3 blogg á einu kvöldi ættu að halda dyggum lesendum í losti næstu mánuði þannig að það liggur ekkert á næsta skammti.

Óskaplega geta menn verið viðkvæmir fyrir þessum húskofum á Laugaveginum, mér virðast þetta bara vera gamlir hjallar sem eru engum til gagns og eru bara fyrir. BDSM bandalagið (Björn, Dagur, Svandís, Margrét) sem ræður víst ríkjum í borginni þessa stundina, ætlaði að fá að flytja þetta í burtu og byggja þetta upp annars staðar það er nú jafnvel enn verra en að láta þetta standa á sínum stað.
Auðvitað verður að finna milliveg á milli þess að rífa allt og vernda allt en ég held að það sem höfuðborgin okkar þarfnast sé nútímalegri miðbær. Loka laugaveginum frá Snorrabraut og niðurúr og gera að göngugötu, rífa hjallana og byggja ný smekkleg hús (ekki of há) sem standast byggingareglugerðir þessarar aldar - eða a.m.k. þeirrar síðustu.

... en ég hef svo sem ekkert vit á þessu.

Facebook og Myspace

Hef verið spurður að því af hverju ég sé horfinn af Facebook.
Við því er einfalt svar. Fyrir nokkru bauð mér maður nokkur í "my extended family" að vera vinur sinn á facebook, jú jú mér líkaði svo sem ágætlega við þann mann ... þá !
Svo vatt þetta uppá sig, vinir vina manns vildu vera vinir manns, ættingjar hentu í mann rollum, ég gaf einhverjum mörgæs ... allt svakalega spennandi ... eða þannig. Ég lagði nú ekkert sérstaklega mikið upp úr því að hanna prófílinn minn en smám saman hlóðst inn á hann allskonar svona rusl um fólk potandi hvort í annað og kastandi rollum. Fljótt varð þetta svo yfirþyrmandi að ég fékk magaverk og hjartsláttartruflanir í hvert skipti sem ég slysaðist til að opna þessa hörmung.
Ég ætlaði að tilnefna facebook sem ljótasta og óþarfasta fyrirbæri í netheimum en í kvöld rambaði ég inn á myspace síðu ... úff púff ... fésbókin leit bara út fyrir að vera mjög fallegt og gagnlegt tól í þeim samanburði.

HEFUR FÓLK VIRKILEGA EKKERT ÞARFARA AÐ GERA ???????

Ég vona að vinir mínir og ættingjar sem reynt hafa að henda í mig rollum og öðru lauslegu í trausti þess að það geti talist góð leið til að "vera í sambandi" fyrirgefi mér þetta óþol á tengslasíðum, en ég er búinn að komast að því að þær eru ekki minn tebolli.

Vinsamlegast ekki pota í mig !

Kveðja Fýlupokinn Sv1

Næstum farinn að ganga

Freyr æfir sig nú stíft að ganga og er bara orðinn nokkuð góður - dettur ekki oft en fer svo sem ekki langar leiðir - en þó kannski 5-10 skref í einu.

Við feðgar erum einir heima, sendum mömmuna í skóla til Reykjavíkur þar sem hún lærir ábyggilega eitthvað gagnlegt. Okkur kemur ágætlega saman þó svo að Freyr virðist nú sakna mömmu sinnar svolítið. Mamman skilar sér svo vonandi aftur um helgina.

Bíllinn okkar er búinn að vera að stríða okkur, tók upp á því á milli jóla og nýárs að fara að ganga illa. Ég hökti á honum upp í Hérað á þriðjudaginn á verkstæði og þóttust þeir vera búnir að finna það út í dag að vandamálið hefði verið bilað háspennukefli. Ég vona að það hafi verið málið og hann verði betri en nýr eftir þetta.

Setti inn slatta af nýjum myndum í gærkvöldi, njótið vel.

2. janúar 2008

Gleðilegt ár 2008

Jæja þá er komið árið 2008. Skrítið hvernig tíminn líður alltaf hraðar og hraðar, nauðsynlegt að gera eitthvað í þessu! Við höfðum það nú alveg ágætt yfir hátíðarnar að öllu jöfnu en veikindi settu samt strik í reikninginn. Við veiktumst öll viku fyrir jól, fengum ælupest ojbara. Svenni byrjaði nóttina áður en ég átti að mæta í próf, ég fór í prófið daginn eftir ákveðinn í að smitast amk ekki fyrr en eftir að því væri lokið. Það var eins og við manninn mælt um leið og ég kom út úr prófinu kl. fjögur, fór mér að líða einkennilega og svo um kvöldmatarleytið var ég orðin veik. Freyr ældi svo daginn eftir og fékk hita í kjölfarið. Þeir feðgar jöfnuðu sig ekkert almennilega eftir þetta, þót ekki með ælupest sem betur fer. Svenni var tussulegur alla hátíðina og Freyr var með hósta og hor en þó hress. Þeir eru fyrst að losna við þetta núna á nýju ári.
Harpa, Gunnar, Birkir og Kári komu fyrir jól og fóru fyrir áramót. Það var ofsalega gaman að fá þau, ég vildi ekki án þeirra vera um jólin. Freyr varð strax stórhrifin af frændum sínum, skreið til þeirra og dundaði sér við hliðiná þeim, fylgdist með þeim og lék sér við þá. Við vissum bara ekki af drengnum þegar þeir voru saman, en annars er hann ekkert of duglegur að dunda sér svona þegar hann er bara með okkur.
Við vorum dugleg að skjóta upp um áramótin, keyptum dýrar og flottar bombur, þar sem Svenni fékk þær á helmingsafslætti. Freyr var ekki vitund hræddur, kom með okkur á brennu en sofnaði svo þegar við komum heim. Hann rumskaði ekkert í látunum á miðnætti.
Næsta önn á eftir að vera strembin og mikið púsluspil að láta þetta ganga upp. Freyr verður áfram hjá Guðlaugu dagmömmu til kl 14 á daginn en hún er ekki lengur. Ég Hrönn verð í 12 einingum í háskólanum ásamt 100% vinnu og Svenni verður í 100% vinnu, svo er bara að láta þetta ganga upp!!! Skipulag hlýtur að vera lykilorð í þessu tilfelli. Ætli ég verði ekki að skorast undan því að þjálfa blak eins og ég gerði fyrir áramót, læt nægja að æfa sjálf og vera í Fræðsluráði.
Nú styttist óðum í 1 árs afmæli Freys. Það verður forvitnilegt að vita hvort hann verði farinn að ganga. Hann hefur fínt jafnvægi enda búinn að ganga með lengi. Hann er aðeins að æfa sig að sleppa sér og standa sjálfur og svo hefur hann tekið tvö skref. Hann er hins vegar frekar hræddur við þetta og lippast oftast niður ef hann skynjar að við ætlum að sleppa takinu. Annars er allt gott að frétta af stráknum. Hann er farinn að skilja ýmislegt, miklu meira en við höldum.Flest tjáskiptin hans fara þó fram í orðinu ,,dudda". Hann þekki orðin þegar við segjum þau, hugsar sig vel um og endurtekur svo ,,dudda". Ég held að hann heyri þetta orð öðruvísi en við og haldi að hann sé að segja þetta bara alveg rétt.
En jæja ég ætla að láta þetta duga í bili og jú við hljótum að hafa það af að setja inn myndir bráðlega.
bestu kveðjur