15. nóvember 2006

Í B'ham

Sælt veri fólkið.
Nú er ég búinn að vera 2 daga í Birmingham á UKOUG 2006 Conference and Exhibition. Þetta er stíft prógramm, fyrirlestrar frá morgni til kvölds. Í gærkvöldi rölti ég aðeins um miðbæinn, það er búið að setja upp jólaskrautið á göngugötunum og er þetta bara að vera nokkuð jólalegt hérna verð ég að segja. Ekki er þó snjór hérna til að skapa stemminguna en mér skilst að hann vanti ekki heima á Norðfirði þessa dagana, það hefur víst verið nánast látlaus snjóbylur síðan ég fór. Það er svo sem ágætt að vera laus við það þó svo að ég hafi ekkert á móti snjó, að moka snjó finnst mér t.d. bara alveg þónokkuð skemmtilegt og gefandi starf ;-). Það er verst að vera ekki heima til að Hrönn greyið þurfi ekki að standa í því að moka bílinn inn í og út úr bílastæðinu.

Hérna koma svo nokkrar myndir teknar á símann minn hérna úti (smella á myndina til að opna albúmið).

13. nóvember 2006

Á ferð og flugi

Ekki varð mikið úr því að klára rafmagnsmál um helgina - rofarnir og dimmarnir sem vantaði komu ekki í tæka tíð. Ég flýtti líka fluginu suður vegna slæms veðurútlits. Ég flaug því suður á laugardaginn og er núna á Keflavíkurflugvelli að bíða eftir fluginu til London. Það er nú hinn mesti munur að hafa þráðlausa nettengingu á flugvellinum þegar maður er einn á ferð og með fartölvuna í "vasanum".
Ég er rétt að vona að mér verði hleypt inn á ráðstefnuna því að eitthvað misskildu Bretarnir mig þegar ég var að reyna að afpanta svokallaðan "event dinner" sem ég hafði bókað með ráðstefnunni. Ég ákvað nefnilega til öryggis að kíkja á bókunina (fyrir ráðstefnuna) á netinu og þá stóð bara þar stórum stöfum CANCELLED. Ég fékk svo staðfestingu á því að "mér hefði verið aflýst" :-(
En það á að reyna að laga þetta ASAP. Ég finn mér þá bara eitthvað annað að gera í Birmingham í heila viku ef það tekst ekki.

En jæja - best að fara að skoða sig um í flugstöðinni - það er nú ekki langt síðan ég var hérna síðast (í ágúst) og þá var búið að breyta ýmsu. Nú er svo komið að maður lendir beint inn í fríhafnarbúðinni þegar maður kemur úr öryggistékkinu, og þarf ábyggilega að kaupa eitthvað þar til að komast áfram að hinum búðunum og kaffihúsunum. Og nú er sem betur fer komið aðeins meira úrval af kaffihúsum/veitingastöðum en var áður þegar okurterían réði lögum og lofum. Var einmitt að renna niður Swiss Mokka og gulrótarköku frá Kaffitári.

9. nóvember 2006

Fúga, rúm og hitastýring

Nú er búið að fúga forstofuna og baðherbergið uppi. Við Grímur settum svo upp dyrakarm og hurð á milli bílskúrs og íbúðar þannig að nú er hægt að loka draslið inni í bílskúrnum. Svo keyptum við okkur forláta rúm, sem hægt er að hækka og lækka til höfuðs og fóta. Nú erum við sem sagt flutt inn í hjónaherbergið, í nýja rúmið. Í gærkvöldi setti ég upp þráðlausa hitastýringu á efri hæðina, þannig að núna ætti hitinn í húsinu (þ.e. efri hæðinni til að byrja með) að verða óháðari útihitastigi og vindstyrk. Hingað til hefur vatnsrennslinu í gólfhitalögnunum verið handstýrt.
Um helgina vonast ég til þess að geta komist langt með að klára raflagnir innanhúss (ef rofarnir koma í tæka tíð að sunnan) og svo fer ég í nördaferð til Birmingham á UKOUG 2006 (United Kingdom Oracle User Group) ráðstefnu. Þar verð ég alla næstu viku.
Ég er búinn að bóka agnarsmátt herbergi á frekar sérstöku hóteli (býst ég við) það kallast nitenite og öll herbergin þar eru rétt rúmlega 6 fermetrar, gluggalaus en með loftræstingu og 40 tommu sjónvarpsskjá með "live" myndum úr myndavélum utan á hótelinu í stað glugga. Þetta er víst svona í stíl við lúxuskáetur í skemmtiferðaskipum. En þetta er á heppilegum stað og á hagstæðum prís þannig að þetta varð fyrir valinu - svo er bara spurning hvort ég verð brjálaður af plássleysi.