9. nóvember 2006

Fúga, rúm og hitastýring

Nú er búið að fúga forstofuna og baðherbergið uppi. Við Grímur settum svo upp dyrakarm og hurð á milli bílskúrs og íbúðar þannig að nú er hægt að loka draslið inni í bílskúrnum. Svo keyptum við okkur forláta rúm, sem hægt er að hækka og lækka til höfuðs og fóta. Nú erum við sem sagt flutt inn í hjónaherbergið, í nýja rúmið. Í gærkvöldi setti ég upp þráðlausa hitastýringu á efri hæðina, þannig að núna ætti hitinn í húsinu (þ.e. efri hæðinni til að byrja með) að verða óháðari útihitastigi og vindstyrk. Hingað til hefur vatnsrennslinu í gólfhitalögnunum verið handstýrt.
Um helgina vonast ég til þess að geta komist langt með að klára raflagnir innanhúss (ef rofarnir koma í tæka tíð að sunnan) og svo fer ég í nördaferð til Birmingham á UKOUG 2006 (United Kingdom Oracle User Group) ráðstefnu. Þar verð ég alla næstu viku.
Ég er búinn að bóka agnarsmátt herbergi á frekar sérstöku hóteli (býst ég við) það kallast nitenite og öll herbergin þar eru rétt rúmlega 6 fermetrar, gluggalaus en með loftræstingu og 40 tommu sjónvarpsskjá með "live" myndum úr myndavélum utan á hótelinu í stað glugga. Þetta er víst svona í stíl við lúxuskáetur í skemmtiferðaskipum. En þetta er á heppilegum stað og á hagstæðum prís þannig að þetta varð fyrir valinu - svo er bara spurning hvort ég verð brjálaður af plássleysi.

Engin ummæli: