7. ágúst 2008

Loksins eitthvað líf hér

Lesendur hafa eitthvað verið að kvarta yfir blogg- og myndaleysi hér. Ég skal reyna að bæta aðeins fyrir það núna.

Það hefur margt drifið á daga okkar síðan Svenni fór til Ameríku.

Á sjómannadaginn var farið í siglingu.
Sjómannadagur 2008


Við fórum til Frakklands um miðjan júní og vorum fram í júlí. Við fórum með Grími og Sýbillu auk þess sem Harpa, Gunnar og strákarnir voru líka með okkur framan af.
Við vorum fyrst öll saman í viku í Center Parcs garði þar sem mjög vel fór um okkur. Þarna var mjög þægilegt að vera með Frey, nóg að gera og Freyr, Kári og Birkir gátu mikið leikið sér saman - sem sagt rólegt og þægilegt fyrir foreldrana. Við getum alveg tekið að okkur að skipuleggja barnvænar ferðar í svona garða fyrir þá sem vilja ;-).

Næstu viku vorum við á tjaldstæði (í húsi) á Bretagne skaganum, nálægt Vannes. Þar keyrðum við svolítið um í kring auk þess sem kvenpeningnum var sleppt (treglega, gengi Evru frekar óhagstætt) í búðaráp.

Síðustu dagana vorum við svo í París, gistum reyndar í útborg (Poissy) og tókum lest inn í bæ. Við mælum ekkert sérstaklega með því að ferðast með lítil börn í París, t.d. eru barnastólar óþekktir á veitingastöðum og aðgengi fyrir kerrur er víðast hvar erfitt. Við skoðuðum þó það helsta ætlast er til af túristum þessari borg.

Litlu munaði að við næðum ekki fluginu heim. Við lögðum tímanlega af stað frá hótelinu og vorum komin að flugvellinum á mjög skikkanlegum tíma. Eitthvað vöfðust þó merkingarnar á slaufunum og flækjunum á flugvallavegunum fyrir okkur og tókst okkur ekki að komast að réttu terminal-i (sem Frakkar vilja víst kalla Aerogare (vitum það næst)). Við komumst heldur ekki á bílaleigubílastæði eftir að hafa elt löggu sem var svo "góð" að leiðbeina okkur um hvert við ættum að fara - á 100 km hraða á 2 hjólum um allar slaufurnar með ýmsum óræðum bendingum út um afturgluggann (lítið gagn í þeim). Við enduðum með að leggja bílnum í almennt bílastæði á snarvitlausum stað, orðin alltof sein í vitlausu Aerogare. Með heilmiklum hlaupum og ruðningi í öryggisleitarröðinni tókst okkur þó að komast inn í vél rétt áður en dyrunum var lokað og var það mjög þreyttur, sveittur og kaffiþurfandi hópur sem sökk niður í sætin á heimleiðinni, Freyr svaf t.d. allt flugið.
Frakkland 2008


Eftir að heim var komið fórum við í að sá í næsta skammt af garðinum, nú er mest allt gras að verða komið. Svenni fór svo á Sprengisand með björgunarsveitinni í 5 daga og Hrönn fór á Ísafjörð að passa strákana á meðan. Svenni keyrði svo vestur eftir óbyggðadvölina þar sem Sýbilla hélt upp á sextugsafmæli sitt.
Afmælisferð til Ísafjarðar


Svo tók við Verslunarmannahelgi þar sem óvenju lítið var um gesti, en Guðrún, Friðbjörn og Oddur Ingi litu þó við auk þess sem Steinunn, Stefán og Ólína voru í bænum. Svenni var frekar upptekinn við störf fyrir björgunarsveitina, tívolírekstur og gæslu.

Eins og þið sjáið er eitthvað komið inn af myndum. Öll albúmin er að finna á myndasíðu hlekknum hér til hliðar.