1. mars 2008

Einir heima

Hrönn er víst í Reykjavík og þá treysta dyggir lesendur á það að hér birtist eitthvað. Ég skal reyna að verða við þeim óskum.

Hrönn er búinn að vera í Reykjavík síðan á miðvikudagskvöld í námslotu og gistir þar hjá háttvirtum og virðulegum fjórða þingmanni Reykjavíkurkjördæmis norður. Mér skilst að ferðin hafi að venju verið notuð í búðarferðir og bíó þegar skóladegi lýkur.

Guðlaug dagmamma segist taka eftir að Freyr hegði sér öðruvísi hjá henni þegar mamman er ekki heima, þá eltir hann Guðlaugu hvert sem hún fer - ekki tek ég eftir miklum breytingum á honum nema að hann virðist sofa betur, lengur og í eigin rúmi þegar hann á ekki von á mömmu sinni. Hann svaf t.d. í fyrsta skipti í langan tíma alla nóttina í sínu rúmi í fyrrinótt.
Á fimmtudaginn komu Óla ömmusystir og Tinna frænka og léku við Frey meðan pabbinn kláraði vinnudaginn á heimaskrifstofunni - það var svaka fjör og tók þónokkra stund að róa drenginn niður eftir að frænkunum var hleypt heim.
Hér fór allt á kaf í snjó aftur á aðfararnótt fimmtudags og þurfti ég að moka mig út í gegnum í ruðninginn af götunni eins og fleiri. Yfirleitt skefur af bílastæðinu hérna hjá okkur og það stendur autt en ruðningurinn af götunni er himinhár, nú snjóaði samt í það litlum vindi að snjórinn fór ekkert í burtu. Við eigum sem betur fer góða nágranna sem eru duglegir að nota tækin sín til að moka bílastæðið - stæðið okkar fær þá stundum að fljóta með, a.m.k. göturuðningurinn.

Við erum búin að panta okkur sumarhús í Frakklandi í sumar í eina viku. Ætlum að vera þar ásamt Tengdó, Hörpu, Gunnari og strákunum. Svo er stefnan að keyra eitthvað um Frakkland og jafnvel finna okkur sumarhús annars staðar. Meiningin er að vera rúmar 2 vikur, seinni hluta júní.

Ég er svo að gæla við það að skella mér í vikuferð til New York í apríl, á námskeið - en það er ekki fullfrágengið ennþá. Ég verð nú að fá að stinga af líka fyrst frúin tollir aldrei heima ;-)

En já ætli það sé ekki best að fara að ferðbúast, erum að fara að sækja Hrönn í flug í Héraðið. Ég þarf líka aðeins að komast í Húsasmiðjuna - ég er nefnilega nokkuð duglegur við að kaupa mér tæki, tól og byggingarefni sem mér finnst þurfa til að klára fráganginn á húsinu - en ég er ekki alveg eins duglegur að nota þetta allt saman. Nú er bílskúrinn og nánast tvo herbergi full af byggingarvörum sem á eftir að koma á sinn stað. Þetta hlýtur að hafast að lokum.