29. ágúst 2006

...og meira parket


Parketlögðum hálft herbergi (hinn helmingurinn var búinn áður) og holið niðri um helgina. Grímur mætti svo á sunnudaginn og setti upp tvenna dyrakarma og tilheyrandi hurðir. Við fórum aftur á móti í afmælisveislu á Vopnafjörð til mömmu á sunnudaginn.

22. ágúst 2006

Parket komið á stofuna


Um helgina lögðum við hjónaleysin parketið á stofuna, það gekk bara ágætlega - við höfðum greinilega reiknað mjög nákvæmlega út hvað við þurftum mikið því að afgangurinn var innan við hálfur planki !
Gólflistarnir koma svo vonandi í dag og ætla ég að byrja að koma þeim niður í kvöld.

Næstu skref eru svo parketlögn á neðri hæðinni, í herbergjum og holi - vonandi komumst við eitthvað áfram með það í vikunni.

21. ágúst 2006

Sófinn sóttur úr vetrardvölinni


Hér má sjá þegar sófinn var sóttur frá Afa fyrir innflutningsteitið.
Myndir úr teitinu má sjá myndasíðunni

18. ágúst 2006

Hvíld eftir innflutningspartýið

Innflutningspartýið fór vel fram, haldin var æsispennandi bjórsmökkunarkeppni þar sem miklir bjórspekingar, auk annarra sem höfðu minni trú á bjórviti sínu, leiddu sam krúsir sínar. Þetta endaði þannig að hún Auður sigraði þetta, náði 5 réttum af 15 (minnir mig).

Við hjónaleysin skelltum okkur svo í vikuferð til Tyrklands til að hvíla okkur á húsbyggingunni, það var voðalega ljúft (kannski aðeins í heitara lagi en alveg viðráðanlegt).

Á meðan við vorum úti þá tók Grímur sig til og stækkaði dyraopið inn í hjónaherbergið, það er eina dyraopið í steyptum vegg hjá okkur (fyrir utan útidyrnar í þvottahúsinu) og það var af einhverjum ástæðum aðeins og lágt (gólfið of hátt). Við höfðum nú hugsað okkur að minnka hurðina bara aðeins að ofan og neðan en Grími líkaði sú ráðstöfun illa, hann laumaðist því til þess að brjóta úr dyraopinu meðan við hvíldum okkur í Tyrklandi.

Við erum svo flutt inn að nafninu til, vegna gestagangs á Marbakkanum um verslunarmannahelgina þá hröktumst við í okkar eigið hús og höfum verið þar síðan (ef frá er talin Tyrklandsförin). Ekki erum við nú búin að flytja mikið af búslóðinni til okkar enda er húsið vart tilbúið fyrir svoleiðis. Við unum okkur þó ágætlega í einu herbergi enda er eldhúsið klárt, gestabaðið, sturtuklefinn og baðkarið.

En... það er víst nóg eftir og við verðum víst ekki verkefnalaus á næstunni.

4. ágúst 2006

Flís við rass

Klósettkassinn á efri hæðinni var flísalagður í gær, stefnt er að því að fúga hann í kvöld og setja svo upp klósettskálina (eins gott að hafa það í lagi fyrir partý).

Annars tafðist flísa- og parketlögn um nokkra daga vegna klúðurs hjá Landflutningum. Við erum búin að hringja daglega í Húsasmiðjuna á Egilsstöðum til að reka á eftir flísunum og parketinu á eldhúsið, þeir sögðust svo hafa skilað því af sér, til Landflutninga á mánudaginn. Ekkert barst þó til okkar. Við grunuðum auðvitað Húsasmiðjuna um að hafa ekki komið þessu frá sér (af fenginni reynslu) og hringdum enn og aftur en þeir stóðu fast á því að hafa komið þessu á bíl. Á miðvikudag (og enn ekkert komið) hringdum við svo í Landflutninga á Egilsstöðum, þá voru þeir búnir að tína brettinu en lofuðust til að leita. Þeir fundu það svo að lokum í Reykjavík !!! höfðu skellt því upp í vitlausan bíl á Egilsstöðum (þessir Héraðsmenn, ég segi ekki annað ;-). En þetta skilaði sér loksins í gær og vonandi náum við að koma pleisinu í partýhæft ástand.

Grímur er búinn að vera að setja upp innihurðir og nú eru komnar hurðir fyrir klósettdyrnar uppi og niðri auk eins herbergis, þannig að nú er að verða íbúðarhæft.

Parketið á eldhúsið fer á í dag, og þá getum við sett ísskápinn á sinn stað (til að kæla bjórinn).

Svo er mæting í partý á laugardagskvöldið kl. 21.