31. mars 2007

Nýjustu tölur

Nei ég er ekki með nýjustu tölur úr Hafnarfirðinum ef þið hélduð það. Ég ætla bara rétt aðeins að láta ykkur vita hvað strákurinn hefur stækkað. Hann fór í 9 vikna skoðun á föstudag og mældist þá 5,9 kíló og 61 cm, höfuðmálið var 42 cm. Hann er nokkuð vel yfir meðaltalinu en samsvarar sér bara vel pilturinn. Ég hallast reyndar að því að þetta meðaltal eigi ekki við nútíma íslensk börn sem eru að jafnaði vel haldin.
Svo vil ég nú bara biðja hana Eygló mágkonu mína afsökunar, uss auðvitað hitti ég hana og hún færði Frey meiri að segja forláta athyglisjúkt epli og dýrabók. Eygló myndi sko ekki láta sig vanta þar sem Freyr er annarsvegar. Svo hittum við líka Óla og það þrátt fyrir að Gettu betur væri í sjónvarpinu.
Kveð að sinni

29. mars 2007

Komin heim

Þá er fjölskyldan reynslunni ríkari, búin að skreppa til Reykjavíkur og til baka aftur, ekkert mál. Ég fór til að sinna náms- og starfsráðgjafanáminum mínu sem ég stunda í fjarnámi. Laugardagurinn fór allur í þetta frá 8 til 16. Ég kveið þessu talsvert, hef auðvitað aldrei þurft að vera svona lengi í burtu frá Frey. Ég undirbjó þetta talsvert, mjólkaði mig um nóttina og ræddi málin við kennarann minn. Varaði hana við því að ég gæti þurft að skreppa heim án fyrirvara og kannski oft yfir daginn. Þegar skipt var í hópa (sem er oft gert í slíku námi) passaði ég mig á því að ég væri ekki valin í tveggja manna hóp (já tveir er hópur og líka fjölskylda ef því er að skipta). Sem sagt gerði svona smá vesen. Nei nei þá voru feðgarnir bara óþolandi sjálfstæðir, ég skrapp bara snemma í mat og gaf honum einu sinni og bara úr örðu brjóstinu, meira þurftu þeir ekki á mér að halda. Svo heldur maður að maður sé ómissandi.

Ath nýjar myndir í 1-2 og 2-3 mánaða möppunum. Sé að Svenni hefur sett nektarmynd af mér inn, þið farið bara hratt yfir hana.

En þetta gekk sem sagt mjög vel og lofar því ferðin vestur til Ísafjarðar eftir viku bara góðu. Við hittum ótrúlega marga miðað við hvað tíminn var naumur, Kristínu og börn /systkini Svenna og færðu þau honum Frey hátæknidót voða fínt, Ásturnar tvær, Steinunni, Stefán og Ólínu, Bryndísi og Jóa og síðast en ekki síst Steinunni, Stefán og Ólínu en því miður mistókst að hitta Guðrúnu, Friðbjörn og Odd Inga þar sem fjölskyldan var meira og minna öll lasin. Hittum þau vonandi næst.
Freyr stækkar hratt, hann fer í viktun og mælingu á morgun og kemur þá í ljós hversu vel hann dafnar. Hann er farin að stjórna höndunum meira, vandar sig við að snerta dótið sem hangir fyrir ofan hann á teppinu, hann er líka óskaplega duglegur að spjalla, kanna að segja nei, og aaaa.
En nú er hann farinn að góla.

19. mars 2007

8 vikna

Jæja, nú er kappinn bara að verða 8 vikna, það er aldeilis hvað tíminn líður. Ég er farinn að mæta aftur á vinnustaðinn og reyni að hanga þar mestallan daginn, en á meðan er heilmikil dagskrá hjá þeim mæðginum heimavið. Veðrið hefur verið gott (þangað til núna um helgina) og fara þau talsvert í gönguferðir og sá stutti sefur úti við á sérsmíðaða pallinum sem ég hróflaði upp um daginn af minni alkunnu snilld úr IKEA vörubretti og spýtnabraki sem til var í kringum húsið.

Föðuramman er búin að vera í heimsókn síðustu daga og er nú að bíða vorsins með að halda heim aftur. Hún kemur reglulega og fylgist með að drengurinn dafni vel - vill reyndar fara að troða í hann graut, en það tíðkast víst ekki með eins ung börn og þegar ég var á aldri Freys.

Við erum smám saman að venja Frey við ferðalög - fyrst fór hann með okkur á rúntinn inn í sveit, nokkrum dögum síðar upp á Skarð og því næst til Reyðarfjarðar (-langafi hans rifjaði það upp við það tækifæri að hann hefði verið orðinn 13 ára þegar hann kom fyrst til Reyðarfjarðar og skildi ekkert þetta flandur á okkur með barnið). Á föstudaginn fórum við svo upp á Hérað til að venja hann enn betur við. Allar þessar ferðir hafa gengið vel og er Freyr bara mjög sáttur við að rúnta um í bíl, hann á líka svo fínan spegil sem hann sér út um allt í. Á fimmtudaginn er svo stefnan tekin á að fara með Frey í fyrsta skipti Suður í Sollinn, Hrönn er að fara í "námslotu" og er hlutverk föðurins að mæla göturnar í Vesturbænum á milli gjafa. Þá fær stráksi að fara í flugvél í fyrsta skipti og vonum við að það gangi eins vel og bílferðirnar. Um páskana fær svo aldeilis að kenna á því á ferðamennskusviðinu því að þá verður reynt að fara með hann til Ísafjarðar, leitun er að eins afskekktum og erfiðum stað til að ferðast á ;-) þannig að ef það gengur vel útskrifast Freyr úr ferðamennskuskólanum.

Annars erum við á því að Flugfélagi Íslands sé illa við barnafólk. Ef maður bókar barn með sér í flug (meira að segja ungabarn sem fær ekki einu sinni sæti eða farangursheimild) þá neitar bókunarvélin manni oftast um ódýrustu sætin sem eru í boði ef maður prófar að bóka sig sem barnlausan einstakling. Ég er með það í undirbúningi að fá þetta rökstutt frá Flugfélaginu með hótun um fjölmiðlafár.

Af húsbyggingu er nú ekki margt að frétta nema kannski ofangreind pallasmíði. Ég afrekaði það þó um síðustu helgi að koma parketi á stigapallinn, það er mikil framför og var talsvert verk - tók a.m.k. jafn langan tíma ef ekki lengri en að parketleggja stofuna á sínum tíma. Nokkrar vikur eru svo síðan að í stigaganginum/andyrinu var komið upp forláta strimlagluggatjöldum (þannig að við búum ekki lengur út á götu) og ljósum í stað geisifagurrar lýsingarlausnar sem ættir sínar á að rekja til Rússaveldis, og gengt hefur þessu hlutverki með prýði hingað til. Eins höfum við verð að hugsa heilmikið um garðinn og er grjóthreinsun meira að segja hafin á þeim vígvellinum. Nú er garðurinn aftur á móti aftur kominn á kaf í snjó og verður víst lítið um stórsigra þar fyrr en aftur fer að vora.

Ég vil svo benda fólki á myndasíðu sem hlekkjað er á hér vinstra megin, þar detta af og til inn nýjar myndir af Frey án þess að það sé endilega tíundað hér. Nú verður albúmunum skipt niður eftir mánuðum og reynt að setja inn í jafnt og þétt.

En þá held ég að þetta sé að verða ágætt í bili. Kærar kveðjur af Þiljuvöllum 9.

6. mars 2007

6 vikna

Jæja það virkaði sem sagt. Núna er Freyr orðinn 6 vikna. Það er voða gaman að fylgjast með honum stækka og sjá breytingarnar á honum dag frá degi. Hann er farinn að vaxa upp úr minnstu fötunum sínum og passar í sumt sem stendur 3-6 mánaða á. Það er svo gaman að geta klætt hann í nýju fötin sín, hann á svo mikið af flöttum fötum kallinn.
Vinurinn brosti loksins til okkar þann 27. feb. Honum fannst hins vegar engin sérstök ástæða til að brosa næstu daga. Hann brosti hins vegar til ömmu sinnar þegar hún var að passa hann enda var hún búin að panta bros. Núna er hann hins vegar að finna húmorinn sinn og hefur brosað stóru brosi til mín síðustu tvo morgna, hann hlær nú nánast, enda er ég stórsniðug sérstaklega á þessum tíma dags. Hugsa að hann sé að hlæja að útganginum á mér, þar sem Svenni er farinn að vinna utan heimilisins og ég hef ekki alltaf tök á að ná hárinu niður og annað slíkt fyrr en Freyr leyfir mér það. Annars slæstum við í svaka fínan magapoka handa honum þannig að öll helstu verk eru unnin með hann á maganum, þar sofnar hann svo gjarnan. Hann er hins vegar þannig núna á daginn að hann vill bara sofa í fanginu á manni. Þar steinsofnar hann en vaknar um leið og reynt er að leggja hann frá sér. Hins vegar getur hann sofið í vagninum sínum en til þess að það gerist þarf líka að fara út að ganga, það þýðir ekkert að blekkja hann. Hins vegar er veðrið oft svo vont að maður kemst bara ekkert út.
Nýttum hins vegar góða veðrið sunnudaginn vel og fórum á skíði, Freyr kom með og svaf vært í vagninum í marga tíma.
Jæja nú er grenjað og grenjað í vöggunni, 10 mín þar er alveg yfirdrifið.

Prufa

Aðeins að tékka hvort að þetta virki svona, Svenni er alltaf að gera þetta meira og meira idiot proof fyrir mig en það virkar samt ekki alltaf, hvað segir það um mig...