25. janúar 2006

Áfram með smjörið

Þessa dagana halda smiðirnir ótrauðir áfram við sitt verk. Nú er verið að klæða efri hæðina og er norðurhliðin búin og austurhliðin langt komin.
Norðurhlið bílskúrsþaksins er líka orðin fullfrágengin og verið er að vinna í þakköntum.
Ég vonast til að síðustu plöturnar á þakið og þakgluggarnir í eldhúsinu fari á sinn stað á morgun.
Smiðirnir ætla svo að taka sér frí um næstu helgi og skreppa suður að heilsa upp á frúrnar.

18. janúar 2006

Það hefur aldrei orðið svo hvasst að það hafi ekki lægt aftur.

Ég var reyndar farinn að efast um þetta á tímabili í gær þegar vindhraðinn fór upp í 45 m/s í hviðum skv. sjálfvirkum mæli Veðurstofunnar.
Hálfuppsetta húsið okkar fékk því aldeilis prófraun strax daginn eftir að veggirnir voru settir upp. En það stóðst þetta, þannig að ég reikna með því að við getum treyst því að þetta hús standist flest veður.

Í dag voru sperrurnar svo hífðar á sinn stað og festar. Þannig vildi til að við fengum kranamann ekki nema í tæpa tvo tíma í morgun (fengum að hafa kranann í allan dag) og eftir nokkra árangurslausa leit að hæfum kranamanni sá ég fram á það að neyðast til að gera þetta sjálfur. Þetta gekk allt stóráfallalaust fyrir sig, enda er ég nú næstum því með próf á bílkrana (a.m.k. bóklegt).

En sperrurnar eru sem sagt komnar upp og húsið farið að taka á sig mynd.
Talandi um myndir, þá fylgja nokkrar hér með, og svo bendi ég á myndasíðuna mína: community.webshots.com/user/sveinnh/ þar er albúm sem kallast húsbygging.


16. janúar 2006

Einingarnar komnar á sinn staðÞað gekk ágætlega að koma einingunum fyrir. Það varð ekki svo hvasst á meðan á því stóð.

Nú spáir norðvestan 25 m/s þannig að nú er eins gott að þetta sé vel fest saman hjá smiðunum.

Húsið farið að rísa

Nú er allt að gerast.

Á laugardaginn komu smiðir að sunnan og byrjuðu á því að taka út úr gámnum. Út úr honum komu einingarnar í húsið ásamt fleiru.

Á sunnudaginn unnu þeir svo við að koma fyrir "fótreiminni", þ.e. plönkum sem leggjast ofan á gólfplötuna og einingarnar leggjast svo ofan á.

Í dag er svo verið að hífa einingarnar á sinn stað. Það hófst um hádegi í ágætis veðri, litlum vindi en kólnandi (eftir rigningu morgunsins). Nú er aftur á móti farið að hvessa og er það ekki alveg besta veðrið í svona vinnu. Ég vona bara að þetta klárist áður en það hvessir meira.

Ég reyni að koma inn myndum í fyrramálið.

12. janúar 2006

Plötu haldið heitri

Síðustu daga hefur verið kynt vel á neðri hæðinni hjá okkur til að halda loftplötunni frostfrírri, það virðist hafa gengið ágætlega, a.m.k. bráðnaði snjórinn af plötunni (ofan af yfirbreiðslunum) þó að nokkurt frost væri.

Í dag er svo hlýrra þannig að ekki þarf að kynda í dag. Á morgun gæti svo fryst aftur en það er spurning hvort ekki er nógu langt um liðið síðan steypt var, þannig að óþarfi sé að kynda.


Kynt hefur verið með gasofni, steinolíuofni og "master"-blásara (steinolía og rafmagn).

10. janúar 2006

Gólfplata efri hæðar steypt


Í gær (9.janúar 2006) var gólfplata efri hæðarinnar steypt. Undirbúningur þess hefur staðið síðustu vikur. Það gekk vel og "glattaði" Þorvarður múrarasonur fyrir okkur bílskúrsgólfið, því verki lauk klukkan 6 í morgun. Bílskúrsgólfið ætti því að vera tilbúið og frágengið, enda voru lögð í það hitarör þannig að ekki þarf að leggja í það aftur þeirra vegna.

Nú er bara að vona að frost næstu daga eyðileggi ekki steypuna. Verið er að plasta fyrir glugga á neðri hæðinni og koma fyrir hitunartækjum til þess að freysta þess að hægt verði að hita neðri hæðina nógu vel upp til að platan haldist frostfrí.

Fyrri gámurinn með húsinu frá Kanada kom á staðinn í dag, þannig að nú fer vonandi að líða að því að efri hæðin rísi. Smiðir koma líklega fyrir helgina til að reisa húsið.

5. janúar 2006

Frágangur loftplötu


Nú er unnið á fullu við frágang og járnabindingu á gólf/loftplötunni. Raflagnateikningar voru að berast þannig að nú komast rafvirkjarnir vonandi fljótlega í að leggja rör milli rafmagnsdósanna sem komu í forsteyptu plötunum. Pípararnir þurfa svo líka að leggja neysluvatnslagnir í plötuna.

Ég er að vonast til að geta steypt plötuna sem fyrst í næstu viku.