22. september 2007

Hvatvísi

Ég (Hrönn) fór á ráðstefnu/námskeið um ADHD (athyglisbrest með ofvirkni) á fimmtudag og föstudag. Það var mjög skemmtilegt og gagnlegt fannst mér. Ofsalega liggur rígurinn milli Fjarðabyggðar/Neskaupstaðar og Egilsstaðar djúpt í okkur. Einhver konuálka fór skyndilega að tala um hvað það væri nú lítið aðhald og að börnin valsa bara um á heimavistinni í Neskaupstað og það væri nú ekki gott fyrir blessuðu ofvirku krakkana. Ég sat nú á mér að mestu en lét hana bara að vita að það væri nú umsjónarmanneskja þarna hjá okkur eins og á Egilsstöðum en gamall Norðfirðingur búsettur á Eskifirði gat ekki setið á sér og baunaði á hana á móti að ekki væri vistin á Egilsstöðum mikið öðruvísi. Stemmningin í kaffihléinu var svolítið undarleg, allir að tala um þetta og konuálkan stóð þarna rauð í framan. Mér finnst ótrúlegt hvað fullorðið fólk á erfitt með að sjá hvað er viðeigandi að tala um hvar, fleiri voru t.d. að koma með einhver persónuleg dæmi um son sinn sem fékk ekki nægilega aðstoð bla bla. Afhverju getur fólk ekki verið faglegra og talað meira almennt. Hér er ég reyndar með gagnrýni á blogginu mínu en það er í fyrsta skipti og í trausti þessi að þetta fólk sem ég tala um kíkir aldrei hér inn.
Ég er farin að hafa talsverðar áhyggjur af því að ég komist ekkert áfram í vinnunni minni, vegna lítils starfshlutfalls, námslota, starfsþjálfunar hjá Þekkingarnetinu og námskeiða. Úff er eitthvað að myndast við að kalla nýnemana til mín, en verð örugglega að því fram á vor, hef því engan tíma fyrir þá nemendur sem verulega þurfa á aðstoð að halda.
Freyr er hress að vanda, er í vagninum sínum búinn að vera í um 3 klst, hlýtur bara að fara að vakna. Við eigum í smá basli með hann á nóttunni, hann vaknar fulloft (sem getur reyndar verið einkenni ofvirkni en í trausti þess erfðaþáttur skýrir ofvirkni í 80% tilfella, leyfi ég mér að halda að þetta sé eitthvað annað) Síðustu nótt drakk hann reyndar bara einu sinni, en vaknaði oftar og við færðum hann nokkrum sinnum úr sínu herbergi og inn til okkar. Hann er farinn að verða svolítið ómögulegur að sofa hjá, er oftast kominn þverrt og farinn að sparka í andlitið á okkur.
Annars á hann til ótrúlegustu hljóð og svipbrigði, hann smellir, smjattar, fretar og skrækir. Honum finnst mjög gaman að klappa og kann að klappa þannig að það heyrist vel í. Við horfðum saman á spurningarþáttinn útsvar í gær sem Frey fannst hinn skemmtilegasti og klappaði oftar en ekki þegar við átti.

Jæja ætli ég fari ekki bara að ná í guttann.
Baráttukveðjur
Hrönn

21. september 2007

8 mánaða skoðun

Freyr fór í skoðun í morgun, fékk sprautu og var mældur í bak og fyrir
Nú er hann 9,15kg og 71,5 cm.

9. september 2007

Hæfileikamaður

Ég skal aðeins láta heyra í mér, ég veit hvað það er leiðinlegt að fylgjast með bloggsíðum þar sem ekkert gerist langtímum saman. Jú jú við erum nokkuð upptekin þannig séð þótt að námið sé nú ekki almennilega farið að trufla mig ennþá. Vona að þessi önn verði ekkert mjög slæm, fer í starfsþjálfun í Þekkingarnetið sem er staðsett á Egilsstöðum fyrir áramót en veit ekki ennþá hvert ég fer eftir áramót. Það er ofsalega gaman að vera byrjuð að vinna og ég held að við höfum öll haft gott af því að skipta svona deginum á milli okkar. Ég er búin að sannreyna það sem ég vissi að hálf námsráðgjafastaða er bara alls ekki nóg við VA. Vona bara að ég geti sannfært Helgu um að gera hana að amk 75% stöðu. En það hefur samt sem áður verið mjög gaman í vinnunni enda er ég heppin að vera í vinnu sem mér finnst afskaplega skemmtileg takk fyrir.
Jæja nóg um mig. Áslaug vildi vita yfir hvaða hæfileikum Freyr býr yfir núorðið. Hmm látum okkur sjá. Freyr er orðinn afskaplega góður að sitja enda samþykkir hann ekki neinar aðrar stellingar nema þá helst að standa sem er náttúrulega toppurinn. Hann mjakar sér hægt áfram á rassinum nokkra sentimetra í einu og þá aðeins ef hann hefur eitthvað að sækja í seilingafjarlægð. Þetta litla mjak verður nú samt til þess að hann færir sig stundum um jafnvel tvo metra á gólfinu. Gallinn er hins vegar sá að við þurfum að elta hann með púða til að setja fyrir aftan hann því að allt í einu verður hann pirraður og ef enginn tekur hann upp strax þá bara kastar maður sér aftur á bak til að tryggja það að einhver komi, og það getur orðið ansi vont að skella á parketinu.
Freyr getur veifað, klappað og sýnt hvað hann er stór en ekkert endilega eftir pöntun. Hann lítur á ljósið ef hann er spurður hvar það er. Hann segir mamma pabba en þá helst þegar hann er að kvarta. Frey finnst skemmtilegt að gera týndur bö, rúlla bolta á milli, opna og loka örbylgjuofninum, dansa í göngugrindinni, kitla og vera kitlaður og það er ýmislega annað sem kætir hann.
Freyr er sem betur fer engin mannafæla og hefur afskaplega gaman af því þegar fólk veitir honum athygli. Við pabbi hans kíktum á einleikinn "Pabbinn" og amma Sýbillia svæfði hann og passaði á meðan og gekk það svona líka vel. Áðan færðum við rúmið hans í sér herbergi og verður spennandi að sjá hvernig það gengur. Hann vaknar nú ennþá einu sinni á nóttu og einu sinni um morgun til að drekka og stundum þarf aðeins að snudda hann þannig að vonandi höldum við út að fara í næsta herbergi til að sækja drenginn.
Það gengur vel að gefa Frey að borða enda mikill nautnaseggur á ferð. Hann borðar ýmislegt grænmeti t.d. kartöflur, sætar kartöflur, blómkál, gulrætur og jafnvel tómata, en ávextirnir eru í uppáhaldi og þá helst banani en hann lætur nú bjóða sér flestar tegundir. Kjöt hefur ekki mikið farið inn fyrir hans varir enda ekkert spenntur fyrir því. Ennþá fær hann brjóstið nokkrum sinnum á dag og er það alltaf jafn gott.
Nú fer að styttast í að mamma gamla verði þrítug, að hugsa sér! Ætlum við að skreppa norður í sumarbústað um næstu helgi af því tímabili og hitta þar, Auði, Daða og fjölsk, Jónu, Sigga og fjölsk, Hörpu, Gunnar og fjölsk og kannski fleiri, ég hlakka mikið til.
Jæja þessi færsla bætur vonandi að einhverju leyti fyrir langa pásu, spurning hvort við komum myndum bara inn í kvöld.
kær kveðja
Hrönn

3. september 2007

Reykjavíkurferð

Síðustu viku vorum við fjölskyldan í Reykjavík, Hrönn var í staðbundinni námslotu og karlpeningurinn fylgdi með. Við keyrðum suður i einum áfanga og gekk það ótrúlega vel, sem og heimferðin sem einnig var farin í einum áfanga. Freyr virtist bara sætta sig nokkuð vel við þessa meðferð en var samt ósköp feginn að koma heim aftur. Meira síðar (kannski).