Jæja, nú er kappinn bara að verða 8 vikna, það er aldeilis hvað tíminn líður. Ég er farinn að mæta aftur á vinnustaðinn og reyni að hanga þar mestallan daginn, en á meðan er heilmikil dagskrá hjá þeim mæðginum heimavið. Veðrið hefur verið gott (þangað til núna um helgina) og fara þau talsvert í gönguferðir og sá stutti sefur úti við á sérsmíðaða pallinum sem ég hróflaði upp um daginn af minni alkunnu snilld úr IKEA vörubretti og spýtnabraki sem til var í kringum húsið.
Föðuramman er búin að vera í heimsókn síðustu daga og er nú að bíða vorsins með að halda heim aftur. Hún kemur reglulega og fylgist með að drengurinn dafni vel - vill reyndar fara að troða í hann graut, en það tíðkast víst ekki með eins ung börn og þegar ég var á aldri Freys.
Við erum smám saman að venja Frey við ferðalög - fyrst fór hann með okkur á rúntinn inn í sveit, nokkrum dögum síðar upp á Skarð og því næst til Reyðarfjarðar (-langafi hans rifjaði það upp við það tækifæri að hann hefði verið orðinn 13 ára þegar hann kom fyrst til Reyðarfjarðar og skildi ekkert þetta flandur á okkur með barnið). Á föstudaginn fórum við svo upp á Hérað til að venja hann enn betur við. Allar þessar ferðir hafa gengið vel og er Freyr bara mjög sáttur við að rúnta um í bíl, hann á líka svo fínan spegil sem hann sér út um allt í. Á fimmtudaginn er svo stefnan tekin á að fara með Frey í fyrsta skipti Suður í Sollinn, Hrönn er að fara í "námslotu" og er hlutverk föðurins að mæla göturnar í Vesturbænum á milli gjafa. Þá fær stráksi að fara í flugvél í fyrsta skipti og vonum við að það gangi eins vel og bílferðirnar. Um páskana fær svo aldeilis að kenna á því á ferðamennskusviðinu því að þá verður reynt að fara með hann til Ísafjarðar, leitun er að eins afskekktum og erfiðum stað til að ferðast á ;-) þannig að ef það gengur vel útskrifast Freyr úr ferðamennskuskólanum.
Annars erum við á því að Flugfélagi Íslands sé illa við barnafólk. Ef maður bókar barn með sér í flug (meira að segja ungabarn sem fær ekki einu sinni sæti eða farangursheimild) þá neitar bókunarvélin manni oftast um ódýrustu sætin sem eru í boði ef maður prófar að bóka sig sem barnlausan einstakling. Ég er með það í undirbúningi að fá þetta rökstutt frá Flugfélaginu með hótun um fjölmiðlafár.
Af húsbyggingu er nú ekki margt að frétta nema kannski ofangreind pallasmíði. Ég afrekaði það þó um síðustu helgi að koma parketi á stigapallinn, það er mikil framför og var talsvert verk - tók a.m.k. jafn langan tíma ef ekki lengri en að parketleggja stofuna á sínum tíma. Nokkrar vikur eru svo síðan að í stigaganginum/andyrinu var komið upp forláta strimlagluggatjöldum (þannig að við búum ekki lengur út á götu) og ljósum í stað geisifagurrar lýsingarlausnar sem ættir sínar á að rekja til Rússaveldis, og gengt hefur þessu hlutverki með prýði hingað til. Eins höfum við verð að hugsa heilmikið um garðinn og er grjóthreinsun meira að segja hafin á þeim vígvellinum. Nú er garðurinn aftur á móti aftur kominn á kaf í snjó og verður víst lítið um stórsigra þar fyrr en aftur fer að vora.
Ég vil svo benda fólki á myndasíðu sem hlekkjað er á hér vinstra megin, þar detta af og til inn nýjar myndir af Frey án þess að það sé endilega tíundað hér. Nú verður albúmunum skipt niður eftir mánuðum og reynt að setja inn í jafnt og þétt.
En þá held ég að þetta sé að verða ágætt í bili. Kærar kveðjur af Þiljuvöllum 9.
6 ummæli:
Já þetta líst mér á bara "stórt" blogg á mánudagsmorgni. Já ég sá þennann forláta pall um daginn og var að segja við Ara að það væri spurning að fá þig til að "hanna" pall hjá okkur hehe... eða ekki.
Styð þetta 100% með flugfélagið fáir með eins mikinn farangur og lítil börn og ótrúlega fíflalegt þetta með bókunina !
Annars bara bestu kveðjur frá okkur mæðgum
p.s bestu kveðjur frá litlu nafnlausu tilvonandi bekkjarsysturinni til Freys.
Gaman að fá fréttir af ykkur. Freyr verður örugglega efstur í sínum bekk í ferðaþjálfunarskólanum ef hann líkist e-ð foreldrum sínum.
ég fylgist ítarlega með öllu sem gerist.... húsabyggingu og barnabyggingu.
Freyr biður að heilsa á móti en vonar að bekkjasystirinn verði ekki enn nafnlaus þegar þau byrja saman í skóla ;-)
Takk fyrir kveðjurnar utan úr heimi
kv hrönn
hehe Hrönn ég bara brást strax við þessu svari þínu, þetta náttúrlega gekk bara ekki hehehe , sem sagt búið að finna dag til að skíra og ekki verra að það er líka búið að finna nafn á "nafnlausu" tilvonandi bekkjarsystur hans Freys en því verður ekki ljóstrað upp fyrr en síðdegis á föstudaginn.
Bíð spennt og við fylgjumst með á heimasíðunni ykkar
Skrifa ummæli