26. júní 2007

Ökufært í bílskúrinn, Akureyrarferð, Danmerkurferð og fleira

Nú í dag varð loks ökufært að bílskúrnum, ekki er reyndar ennþá fært inn í hann út af drasli en nú er ekki lengur stór hola framan við dyrnar. Í vor var steyptur stoðveggur við hornið á húsinu og nú var verið að fylla að honum og jafna bílastæðið út. Þetta verður hinn mesti munur, a.m.k. er gott að fá meira pláss á bílastæðinu.

Á sunnudaginn fórum við fjölskyldan ásamt Grími og Sýbillu norður á Akureyri í útilegu, komum aftur á mánudagskvöld. Þetta var fyrsta útilegan hans Freys og stóð hann sig bara vel enda var veðrið með endæmum gott og viðlegubúnaðurinn ekki af verri endanum. Opinber ástæða ferðarinnar var að sækja Birki og Kára voru að koma í heimsókn hjá afa sínum og ömmu. Húsið hjá þeim (afanum og ömmunni) er reyndar ekki mjög gestvænt sem stendur þar sem verið er að skipta um eldhúsinnréttingu, baðinnréttingu, baðkar, neysluvatnslagnir og ábyggilega eitthvað fleira. Strákarnir ásamt ömmunni búa því hjá okkur núna en afinn fær að dúsa á byggingarsvæðinu þangað til hann verður búinn að klára þetta ;-)

Á föstudaginn leggjum við svo haf undir væng og bregðum okkur til Danmerkur í fjölskylduferð. Fyrir fjölskyldu sem býr dreifð um landið er hentugast að hittast í Kaupmannahöfn. Eygló kemur frá Reykjavík og Steina kemur frá Vopnafirði - fljúgandi frá Akureyri. Við fljúgum út frá Egilsstöðum.
Við verðum í viku í Kaupmannahöfn en förum svo og heimsækjum frú Jóhönnu og fjölsk. í Odense. Það verður áhugavert að sjá hvernig Freyr tekur tímamismuninum því að hann virðist hafa mjög gangvissa líkamsklukku og sofnar alltaf klukkan 9 á kvöldin. Það er verðugt rannsóknarefni hvort hægt er að stilla þessa klukku á annað tímabelti, en það munar nú ekki nema 2 tímum en það er nú full snemmt að fara í háttinn klukkan 7 og vakna klukkan 6 á morgnana - okkur þætti það ekkert verra þó mismunurinn væri á hinn veginn en þetta kemur allt í ljós - Freyr væri vís til að koma okkur enn og aftur á óvart og aðlaga sig fljótt að nýjum aðstæðum.
- Uppfærsla: þetta virðist hafa snúist í hausnum á mér, klukkan er víst á undan í Danmörku þannig að ef Freyr heldur áfram að sofna kl 21 að íslenskum tíma og vakna kl 8 þá er það víst kl 23 og 10 í Danaveldi - sem er nú bara mjög þægilegur tími þegar maður er í fríi, en það verður samt spennandi að fylgjast með því hvort líkamsklukka Freys aðlagar sig að öðru tímabelti.

Í síðustu viku sáðum við grasfræi í garðinn okkar og bíðum við nú spennt eftir því að eitthvað fari að spretta upp af þeim, það er nú lítið farið að gerast ennþá en það ætti nú eitthvað að vera farið að gerast þegar við komum aftur að utan. Dúfurnar hafa ekki ennþá uppgötvað þetta hnossgæti sem við berum á borð fyrir þær og vonum við að þær missi alveg af þessu, það er víst eitt af helstu vandamálunum við sáningu að halda fuglunum í burtu.


Eitthvað af myndum ætti að koma inn á næstu dögum - a.m.k áður en við förum út, það er víst best að tæma myndavélina áður. En þangað til - veriði sæl.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vá, bara langt blogg :) Hlakka til að sjá ykkur :)

Nafnlaus sagði...

uuu sko kl. 9 á Íslandi er klukkan 11 hér:) Annars hlökkum við bara til að sjá ykkur, gaman að fá svona langt blogg á meðan við bíðum.

Svenni sagði...

Hmmm... já það er rétt hjá þér frú Jóhanna - þetta hefur eitthvað snúist í mínum vitlausa haus... þannig að það verður mjög mátulegt að Freyr haldi sig bara á íslenskum tíma svo við getum nú spókað okkur úti við frameftir kvöldi og sofið lengur á morgnana ...

Nafnlaus sagði...

Já mér líst mjög vel á það. Verð nú samt að játa að þessi tímamunur og skipting milli sumar og vetrartíma vefst annars mjög oft og mikið fyrir mér.

Nafnlaus sagði...

Góða ferð til Danmerkur. Vona að þið eigið eftir að skemmta ykkur vel. Nú styttist í að við komum austur og ég er satt best að segja farin að hlakka mikið til að hitta ykkur.