9. september 2007

Hæfileikamaður

Ég skal aðeins láta heyra í mér, ég veit hvað það er leiðinlegt að fylgjast með bloggsíðum þar sem ekkert gerist langtímum saman. Jú jú við erum nokkuð upptekin þannig séð þótt að námið sé nú ekki almennilega farið að trufla mig ennþá. Vona að þessi önn verði ekkert mjög slæm, fer í starfsþjálfun í Þekkingarnetið sem er staðsett á Egilsstöðum fyrir áramót en veit ekki ennþá hvert ég fer eftir áramót. Það er ofsalega gaman að vera byrjuð að vinna og ég held að við höfum öll haft gott af því að skipta svona deginum á milli okkar. Ég er búin að sannreyna það sem ég vissi að hálf námsráðgjafastaða er bara alls ekki nóg við VA. Vona bara að ég geti sannfært Helgu um að gera hana að amk 75% stöðu. En það hefur samt sem áður verið mjög gaman í vinnunni enda er ég heppin að vera í vinnu sem mér finnst afskaplega skemmtileg takk fyrir.
Jæja nóg um mig. Áslaug vildi vita yfir hvaða hæfileikum Freyr býr yfir núorðið. Hmm látum okkur sjá. Freyr er orðinn afskaplega góður að sitja enda samþykkir hann ekki neinar aðrar stellingar nema þá helst að standa sem er náttúrulega toppurinn. Hann mjakar sér hægt áfram á rassinum nokkra sentimetra í einu og þá aðeins ef hann hefur eitthvað að sækja í seilingafjarlægð. Þetta litla mjak verður nú samt til þess að hann færir sig stundum um jafnvel tvo metra á gólfinu. Gallinn er hins vegar sá að við þurfum að elta hann með púða til að setja fyrir aftan hann því að allt í einu verður hann pirraður og ef enginn tekur hann upp strax þá bara kastar maður sér aftur á bak til að tryggja það að einhver komi, og það getur orðið ansi vont að skella á parketinu.
Freyr getur veifað, klappað og sýnt hvað hann er stór en ekkert endilega eftir pöntun. Hann lítur á ljósið ef hann er spurður hvar það er. Hann segir mamma pabba en þá helst þegar hann er að kvarta. Frey finnst skemmtilegt að gera týndur bö, rúlla bolta á milli, opna og loka örbylgjuofninum, dansa í göngugrindinni, kitla og vera kitlaður og það er ýmislega annað sem kætir hann.
Freyr er sem betur fer engin mannafæla og hefur afskaplega gaman af því þegar fólk veitir honum athygli. Við pabbi hans kíktum á einleikinn "Pabbinn" og amma Sýbillia svæfði hann og passaði á meðan og gekk það svona líka vel. Áðan færðum við rúmið hans í sér herbergi og verður spennandi að sjá hvernig það gengur. Hann vaknar nú ennþá einu sinni á nóttu og einu sinni um morgun til að drekka og stundum þarf aðeins að snudda hann þannig að vonandi höldum við út að fara í næsta herbergi til að sækja drenginn.
Það gengur vel að gefa Frey að borða enda mikill nautnaseggur á ferð. Hann borðar ýmislegt grænmeti t.d. kartöflur, sætar kartöflur, blómkál, gulrætur og jafnvel tómata, en ávextirnir eru í uppáhaldi og þá helst banani en hann lætur nú bjóða sér flestar tegundir. Kjöt hefur ekki mikið farið inn fyrir hans varir enda ekkert spenntur fyrir því. Ennþá fær hann brjóstið nokkrum sinnum á dag og er það alltaf jafn gott.
Nú fer að styttast í að mamma gamla verði þrítug, að hugsa sér! Ætlum við að skreppa norður í sumarbústað um næstu helgi af því tímabili og hitta þar, Auði, Daða og fjölsk, Jónu, Sigga og fjölsk, Hörpu, Gunnar og fjölsk og kannski fleiri, ég hlakka mikið til.
Jæja þessi færsla bætur vonandi að einhverju leyti fyrir langa pásu, spurning hvort við komum myndum bara inn í kvöld.
kær kveðja
Hrönn

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman að fá skýrslu um Frey. Orðinn voða stór og duglegur strákur. Fer hann ekki að mega fá gúrku, þar sem búið er að skera þetta græna af, til að naga? Ólínu finnst ennþá gaman að fá svoleiðis.

Hún er reyndar farin að bjarga sér sjálf með skyr. Er búin að sækja það í ísskápinn. Er því stokkin á eftir henni.

Kv.Steinunn Þóra

Unknown sagði...

Jahá ! svei mér þá hvað drengurinn er orðinn duglegur :o) hrædd um að hún Hafrún Katla sé bara að spretta fram ´ur honum hvað vöxtinn varðar :o) hahaha Sjáumst nú vonandi fljótlega , Til hamingju með afmælið og góða skemmtun fyrir norðan.

Nafnlaus sagði...

Fer ekki að verða komið kvöld !?
Kær kveðja frá ömmu sem bíður óþolinmóð eftir nýjum myndum.
p.s.Ég ætla að fara að setja inn myndir hjá mér.