25. maí 2007

Nýjar tölur

Freyr var mældur í bak og fyrir í morgun, 7,3 kg, 65,5 cm langur og höfuðmál 44 cm. Já það teygist á honum í allar áttir.

18. maí 2007

Tvö ein í kotinu

Svenni var að fara suður á landsþing björgunarsveitanna í morgun. Við Freyr erum því tvö ein en komum nú til með að plumma okkur þótt að við söknum hans. Strákurinn okkar breytist þroskast mjög hratt núna, það er allt að gerast bara enda verður hann fjögurra mánaða á þriðjudaginn. Hann er farinn að grípa í alla hluti og stinga upp í sig, þannig að allt í einu þarf maður að passa sig á honum þegar hann situr í fanginu á manni við borðið. Freyr er ekki bara líkur pabba sínum í útliti heldur sýnist mér stefna í að hann verði algjörlega takkaóður eins og Svenni. Hann á dót með dýratökkum sem heyrast dýrahljóð í þegar hann ýtir á þá og var ekki lengi að átta sig á þessu. Hann ýtir og ýtir eins og óður maður. Eins er hann farinn að ráðast á tölvuna þegar hann sér hana og teigir sig fram til að ýta á takkana af mikill áfergju. Freyr dafnar líka mjög vel, hann er orðinn stór og þungur og farinn að síga vel í svo að mamman reynir að komast í sund amk þrisvar í viku til að styrkja bakið. Hann er líka ofsalega glaður og líflegur og bara alveg frábær ;-) já já meiri að segja ég er orðin pínu væmin ég viðurkenni það.
Núna liggur Freyr útí vagni í veðri sem ég voga mér ekki útí sjálf, algjöru vetrarveðri rok og slydda. Honum líður hins vegar mjög vel þarna úti, vona ég. Að vísu var ekki hægt að hafa hlustunartækið úti því það fór stöðugt í gang vegna látanna í veðrinu.
Við Daði erum að fara í útskrift VA á morgun. Okkur var boðið ásamt þeim sem útskrifuðust um leið (þ.á.m. Svenni og Bryndís), af því tilefni að við tilheyrum fyrsta hópnum sem var alfarið útskrifaður frá VA án aðstoðar frá ME. Það eru 10 ár síðan, það er nú ekkert svo mikið er það? Daði ætlar að halda ræðu eins og hann gerði fyrir 10 árum en ekki sömu ræðuna þó. Við reyndum að setja saman einhverja punkta um daginn en mundum reyndar ekkert mjög mikið en vorum sammála um að það hafi bara verið rosalega gaman á þessum árum. Mér fannst skólinn meiri að segja svo fínn að ég ákvað að fara að vinna þar sjálf og líkar það rosalega vel. Hlakka bara til að fara að vinna hálfan daginn í haust.
Jæja elskurnar læt þetta duga, bráðlega koma inn myndir sem eru m.a. teknar á nýju starfrænu EOS 400 myndavélina hans pabba, svaka græja.

5. maí 2007

Horfið er nú sumarið og sólin

Já það hefur verið einmuna veðurblíða eins og sést á þeim myndum sem Svenni setti inn. Ég á nú kannski eftir að bæta fleirum inn, mér finnst hann alltaf svolítið spar á myndirnar ;-) En eins og sumir austfirðingar vita (ekki Esk- og Reyðfirðingar þó) var heil vika þar sem hitastigið fór ekki niður fyrir 16 gráður. Freyr var svolitla stund að átta sig á þessu en síðustu dagana var hann farinn að geta sofið á samfellunni í vagninum sínum og haft opin augun úti en þó aðeins ef hann var í skugga. Ég (Hrönn) sem átti að vera læra gat auðvitað ekki hugsað mér það og var svona í laumi að vonast til þess að veðrið versnaði því að lokaskil á heimaprófi nálguðust óðum. Það kom líka að því að það snarkólnaði og núna erum við farin að klæða strákinn upp í flísgallann sinn og allt er orðið eins og hann hefur átt að venjast meiri hluta ævi sinnar.

Freyr breytist mjög hratt þessa dagana. Hann er orðinn flinkur að liggja á maganum og velti sér um daginn yfir á bakið alveg óvart þó. Hann tók svakalegan vaxtarkipp stuttu eftir að hann var mældur og hefur nú lengst um marga cm á örfáum dögum. Hann er alltaf mjög ræðinn. Æfir ýmis hljóð og dundar sér heillengi við að æfa kvarthljóðin vel áður en hann velur besta kvartið til að nota í það og það skiptið. En ósköp er hann nú þægilegur drengurinn, kvartar bara ef hann vill félagsskap og er svangur. Hann sofnaði í heila viku kl. fimm mín í níu en er nú orðinn viltur og á það til að sofna bæði 20 mín í og yfir níu. Fyrsti lúrinn er oftast 6-9 tímar sem er bara lúxus. Eina vandamálið er því að það er bara mamma sem má svæfa hann. Pabbinn er skemmtilegur mest allan daginn, það vantar ekki en eftir klukkan átta á kvöldin verður hann alveg ómögulegur og ekki að ræða það að vera hjá honum. Við reynum að taka á þessu og vonumst svo bara til að þetta vaxi sem fyrst af honum.
Eins og glöggir mynskoðendur sáu eru svalirnar að rísa hjá okkur, verst að sumarið er búið ;-) Ég hugsa að svalirnar verði bara orðnar nothæfar á þriðjudag, en Svenni ætlar að leggja ,,gólfið" í þær um helgina. Eins er verið að steypa veggi til að halda uppi jarðveginum þannig að það er að lifna yfir framkvæmdunum á nýjan leik.
Segi þetta gott af lífinu á Þiljuvöllum 9 en gaman væri að þið sem lesið en hafið aldrei skrifað comment kvittið, ekki vera feimnar elskurnar.

23. apríl 2007

Nýjustu tölur úr Norðausturkjördæmi

.... eru kannski ekki svo nýjar, síðan á föstudaginn. Freyr mældist í þriggja mánaða skoðun 6,45 kg og 62 cm - hann hefur því aðallega stækkað á þverveginn síðan síðasta mæling fór fram.

Annars er bara allt gott að frétta, móðirin hefur verið upptekin við lærdóminn síðustu vikur, kláraði ritgerð á föstudaginn og tók til að "heimapróf" á um helgina. Faðirinn dundar við "home improvement" þegar drengurinn sefur, gólflistar og gluggatjöld voru helstu verkefni helgarinnar. Svo er alltaf verið að hugsa um garðinn. Grjóthreinsun gengur hægt og örugglega (verður lokið síðla sumars 2015 með sama áframhaldi) en í gærkvöldi mætti Daði grár fyrir járnum með keðjusög og saxaði niður gömul tré sem voru neðan við lóðina, þau þóttu of gömul og lúin til að halda upp á þau lengur. Nú er sennilega eins gott að fara að koma niður nýjum trjám til að þetta verði ekki eins eyðilegt allt saman.

Við erum búin að panta okkur flugferð til Danmerkur í lok júní, nýtum okkur flug Iceland Express frá Egilsstöðum, það munar talsverðu að þurfa ekki að þvælast suður til þess eins að skreppa til Köben. Við verðum tæpan hálfan mánuð og stefnum auðvitað að því að heimsækja Jóhönnu og fjölsk.

19. apríl 2007

Nýjar myndir

Það eru komnar nýjar myndir m.a frá Ísafirði. Ath að við bættum einnig myndum inná milli í 2-3 mánaða albúmið.
Á morgun fer Freyr svo í þriggja mánaða skoðun.

13. apríl 2007

Ísafjarðarferð

Um páskana fór Freyr í útskriftarferð sína úr 1.bekk ferðalagaskólans. Við fjölskyldan lögð land undir fót og fórum til Ísafjarðar. Við nenntum ekki að keyra þetta en flugum í staðinn, með millilendingu í Reykjavík enda ekki annað í boði. Freyr tók þessu vafstri með jafnaðargeði og lét sér þetta vel líka. Við vorum svo í góðu yfirlæti yfir páskana og rúmlega það hjá Hörpu og Gunnari og var Kári sérstaklega ánægður með að fá "litla Frey" í heimsókn, hann var líka duglegur að fá Hrönn til að leika við sig. Við fórum svo aðeins á skíði og talsvert í göngutúra um Ísafjarðarbæ. Þátttaka okkar í "Rokkhátíð alþýðunnar" var frekar lítil, náðum víst lágpunktinum á henni, Mínus (sem voru full háværir og þungt rokkaðir fyrir okkar smekk) og biðinni eftir Blonde Redhead sem voru svo víst ekkert í sérlega góðum gír (við gáfumst reyndar upp á biðinni áður en við gátum upplifað það).

Freyr náði sér í sitt fyrsta kvef fyrir vestan og kræktu báðir foreldrar hans sér í það líka. Þeir kvörtuðu þó meira en sá stutti þó svo að það geti verið erfitt að sjúga þegar nefið er hálfstíflað. Foreldrarnir eru enn að ræskja sig og sjúga upp í nefið en Freyr virðist vera búinn að hrista þetta af sér.

Það var vægast sagt misviðrasamt á Ísafirði, eða réttara væri kannski að segja skjótviðrasamt því að það var ekki hægt að draga neina ályktun af því hvernig veðrið yrði næstu tímana af því að líta til veðurs. Síðasta daginn löbbuðum við t.d út á Eyri í smá rigningu en ekki miklum vindi, fórum svo á búðarölt og bakarísheimsóknir í sól og smá vindi, hugðumst labba heim seinnipartinn á móti vindinum sem hafði aukist en þar sem var þurrt töldum við það ekki koma að sök en við vorum ekki komin langt þegar fór að mígrigna með rokinu. Þá fundum við strætóstoppistöð og biðum þar í ca 20 mínútur og á þeim tíma hafði stytt upp, farið að snjóa, lægt, hvesst, birt til, dimmt yfir og sjálfsagt eitthvað fleira - en heim, inn í Fjörð, komumst við að lokum í grænum strætisvagni.

Hrönn er vís til með að skrifa eitthvað meira um þessa ferð - en ég lofa engu.

31. mars 2007

Nýjustu tölur

Nei ég er ekki með nýjustu tölur úr Hafnarfirðinum ef þið hélduð það. Ég ætla bara rétt aðeins að láta ykkur vita hvað strákurinn hefur stækkað. Hann fór í 9 vikna skoðun á föstudag og mældist þá 5,9 kíló og 61 cm, höfuðmálið var 42 cm. Hann er nokkuð vel yfir meðaltalinu en samsvarar sér bara vel pilturinn. Ég hallast reyndar að því að þetta meðaltal eigi ekki við nútíma íslensk börn sem eru að jafnaði vel haldin.
Svo vil ég nú bara biðja hana Eygló mágkonu mína afsökunar, uss auðvitað hitti ég hana og hún færði Frey meiri að segja forláta athyglisjúkt epli og dýrabók. Eygló myndi sko ekki láta sig vanta þar sem Freyr er annarsvegar. Svo hittum við líka Óla og það þrátt fyrir að Gettu betur væri í sjónvarpinu.
Kveð að sinni

29. mars 2007

Komin heim

Þá er fjölskyldan reynslunni ríkari, búin að skreppa til Reykjavíkur og til baka aftur, ekkert mál. Ég fór til að sinna náms- og starfsráðgjafanáminum mínu sem ég stunda í fjarnámi. Laugardagurinn fór allur í þetta frá 8 til 16. Ég kveið þessu talsvert, hef auðvitað aldrei þurft að vera svona lengi í burtu frá Frey. Ég undirbjó þetta talsvert, mjólkaði mig um nóttina og ræddi málin við kennarann minn. Varaði hana við því að ég gæti þurft að skreppa heim án fyrirvara og kannski oft yfir daginn. Þegar skipt var í hópa (sem er oft gert í slíku námi) passaði ég mig á því að ég væri ekki valin í tveggja manna hóp (já tveir er hópur og líka fjölskylda ef því er að skipta). Sem sagt gerði svona smá vesen. Nei nei þá voru feðgarnir bara óþolandi sjálfstæðir, ég skrapp bara snemma í mat og gaf honum einu sinni og bara úr örðu brjóstinu, meira þurftu þeir ekki á mér að halda. Svo heldur maður að maður sé ómissandi.

Ath nýjar myndir í 1-2 og 2-3 mánaða möppunum. Sé að Svenni hefur sett nektarmynd af mér inn, þið farið bara hratt yfir hana.

En þetta gekk sem sagt mjög vel og lofar því ferðin vestur til Ísafjarðar eftir viku bara góðu. Við hittum ótrúlega marga miðað við hvað tíminn var naumur, Kristínu og börn /systkini Svenna og færðu þau honum Frey hátæknidót voða fínt, Ásturnar tvær, Steinunni, Stefán og Ólínu, Bryndísi og Jóa og síðast en ekki síst Steinunni, Stefán og Ólínu en því miður mistókst að hitta Guðrúnu, Friðbjörn og Odd Inga þar sem fjölskyldan var meira og minna öll lasin. Hittum þau vonandi næst.
Freyr stækkar hratt, hann fer í viktun og mælingu á morgun og kemur þá í ljós hversu vel hann dafnar. Hann er farin að stjórna höndunum meira, vandar sig við að snerta dótið sem hangir fyrir ofan hann á teppinu, hann er líka óskaplega duglegur að spjalla, kanna að segja nei, og aaaa.
En nú er hann farinn að góla.

19. mars 2007

8 vikna

Jæja, nú er kappinn bara að verða 8 vikna, það er aldeilis hvað tíminn líður. Ég er farinn að mæta aftur á vinnustaðinn og reyni að hanga þar mestallan daginn, en á meðan er heilmikil dagskrá hjá þeim mæðginum heimavið. Veðrið hefur verið gott (þangað til núna um helgina) og fara þau talsvert í gönguferðir og sá stutti sefur úti við á sérsmíðaða pallinum sem ég hróflaði upp um daginn af minni alkunnu snilld úr IKEA vörubretti og spýtnabraki sem til var í kringum húsið.

Föðuramman er búin að vera í heimsókn síðustu daga og er nú að bíða vorsins með að halda heim aftur. Hún kemur reglulega og fylgist með að drengurinn dafni vel - vill reyndar fara að troða í hann graut, en það tíðkast víst ekki með eins ung börn og þegar ég var á aldri Freys.

Við erum smám saman að venja Frey við ferðalög - fyrst fór hann með okkur á rúntinn inn í sveit, nokkrum dögum síðar upp á Skarð og því næst til Reyðarfjarðar (-langafi hans rifjaði það upp við það tækifæri að hann hefði verið orðinn 13 ára þegar hann kom fyrst til Reyðarfjarðar og skildi ekkert þetta flandur á okkur með barnið). Á föstudaginn fórum við svo upp á Hérað til að venja hann enn betur við. Allar þessar ferðir hafa gengið vel og er Freyr bara mjög sáttur við að rúnta um í bíl, hann á líka svo fínan spegil sem hann sér út um allt í. Á fimmtudaginn er svo stefnan tekin á að fara með Frey í fyrsta skipti Suður í Sollinn, Hrönn er að fara í "námslotu" og er hlutverk föðurins að mæla göturnar í Vesturbænum á milli gjafa. Þá fær stráksi að fara í flugvél í fyrsta skipti og vonum við að það gangi eins vel og bílferðirnar. Um páskana fær svo aldeilis að kenna á því á ferðamennskusviðinu því að þá verður reynt að fara með hann til Ísafjarðar, leitun er að eins afskekktum og erfiðum stað til að ferðast á ;-) þannig að ef það gengur vel útskrifast Freyr úr ferðamennskuskólanum.

Annars erum við á því að Flugfélagi Íslands sé illa við barnafólk. Ef maður bókar barn með sér í flug (meira að segja ungabarn sem fær ekki einu sinni sæti eða farangursheimild) þá neitar bókunarvélin manni oftast um ódýrustu sætin sem eru í boði ef maður prófar að bóka sig sem barnlausan einstakling. Ég er með það í undirbúningi að fá þetta rökstutt frá Flugfélaginu með hótun um fjölmiðlafár.

Af húsbyggingu er nú ekki margt að frétta nema kannski ofangreind pallasmíði. Ég afrekaði það þó um síðustu helgi að koma parketi á stigapallinn, það er mikil framför og var talsvert verk - tók a.m.k. jafn langan tíma ef ekki lengri en að parketleggja stofuna á sínum tíma. Nokkrar vikur eru svo síðan að í stigaganginum/andyrinu var komið upp forláta strimlagluggatjöldum (þannig að við búum ekki lengur út á götu) og ljósum í stað geisifagurrar lýsingarlausnar sem ættir sínar á að rekja til Rússaveldis, og gengt hefur þessu hlutverki með prýði hingað til. Eins höfum við verð að hugsa heilmikið um garðinn og er grjóthreinsun meira að segja hafin á þeim vígvellinum. Nú er garðurinn aftur á móti aftur kominn á kaf í snjó og verður víst lítið um stórsigra þar fyrr en aftur fer að vora.

Ég vil svo benda fólki á myndasíðu sem hlekkjað er á hér vinstra megin, þar detta af og til inn nýjar myndir af Frey án þess að það sé endilega tíundað hér. Nú verður albúmunum skipt niður eftir mánuðum og reynt að setja inn í jafnt og þétt.

En þá held ég að þetta sé að verða ágætt í bili. Kærar kveðjur af Þiljuvöllum 9.

6. mars 2007

6 vikna

Jæja það virkaði sem sagt. Núna er Freyr orðinn 6 vikna. Það er voða gaman að fylgjast með honum stækka og sjá breytingarnar á honum dag frá degi. Hann er farinn að vaxa upp úr minnstu fötunum sínum og passar í sumt sem stendur 3-6 mánaða á. Það er svo gaman að geta klætt hann í nýju fötin sín, hann á svo mikið af flöttum fötum kallinn.
Vinurinn brosti loksins til okkar þann 27. feb. Honum fannst hins vegar engin sérstök ástæða til að brosa næstu daga. Hann brosti hins vegar til ömmu sinnar þegar hún var að passa hann enda var hún búin að panta bros. Núna er hann hins vegar að finna húmorinn sinn og hefur brosað stóru brosi til mín síðustu tvo morgna, hann hlær nú nánast, enda er ég stórsniðug sérstaklega á þessum tíma dags. Hugsa að hann sé að hlæja að útganginum á mér, þar sem Svenni er farinn að vinna utan heimilisins og ég hef ekki alltaf tök á að ná hárinu niður og annað slíkt fyrr en Freyr leyfir mér það. Annars slæstum við í svaka fínan magapoka handa honum þannig að öll helstu verk eru unnin með hann á maganum, þar sofnar hann svo gjarnan. Hann er hins vegar þannig núna á daginn að hann vill bara sofa í fanginu á manni. Þar steinsofnar hann en vaknar um leið og reynt er að leggja hann frá sér. Hins vegar getur hann sofið í vagninum sínum en til þess að það gerist þarf líka að fara út að ganga, það þýðir ekkert að blekkja hann. Hins vegar er veðrið oft svo vont að maður kemst bara ekkert út.
Nýttum hins vegar góða veðrið sunnudaginn vel og fórum á skíði, Freyr kom með og svaf vært í vagninum í marga tíma.
Jæja nú er grenjað og grenjað í vöggunni, 10 mín þar er alveg yfirdrifið.

Prufa

Aðeins að tékka hvort að þetta virki svona, Svenni er alltaf að gera þetta meira og meira idiot proof fyrir mig en það virkar samt ekki alltaf, hvað segir það um mig...

22. febrúar 2007

Mánaðar gamall

Nú er kappinn orðinn eins mánaðargamall. Ennþá er Freyr ósköp góður og rólegur, langoftast. Dagarnir eru mjög mismunandi, ef hann fær tækifæri til að fara út í vagninn sefur hann lengi á daginn og höfum við stundum vakið hann til að gefa honum að drekka. Á nóttunni er hann farinn að taka upp á að sofa í svona fjóra tíma í fyrsta lúrnum en þá er bara kúnstin að fá fyrsta lúrinn á réttum tíma svo að foreldrarnir geti sofið honum til samlætis.
Við eigum í bleiu vandamáli, sama hvað við vöndum okkur við að setja bleiuna á, typpið niður og allar kúnstir, nær kapinn að pissa framhjá, sérstaklega á nóttunni. Frekar leiðinlegt að þurfa að skipta á bleiu á nóttunni, pabbinn er alltaf sendur í það. Góð ráð frá strákaforeldrum væru vel þegin.
Freyr er mjög upptekin við horfa framaní okkur og nú vantar okkur bara brosið. Hann brosir sæll og ánægður með lokuð augun eftir að hafa drukkið en ekkert félagslegt bros ennþá.
Við fáum Þórhöllu hjúkrunarfræðing í heimsókn á morgun, það verður spennandi að vita hversu þungur hann er orðinn.
Nú fer pabbinn bráðlega að stinga af í vinnu og kvíði ég því talsvert. Það er svo gott að geta sofið aðeins lengur á morgnanna og að hafa þvottakörfuna alltaf tóma ;-)

31. janúar 2007

Og fleirimyndir

Og mamman lifir

Ég vildi ekki vera að flækja málin með því að blogga barnablogg inná mína síðu (eða blogga þar nokkuð yfirhöfuð) þótt að Svenni sé alltaf að reyna að fá mig til að blogga þar.
Eins og komið hefur fram þá gengur allt voða vel hjá okkur. Þessi elska gerir lítið annað en að drekka og sofa og upp á síðkastið kúka nokkrum sinnum á dag enda safnaði hann í heila viku. Við njótum því lífsins í botn, ég sef til svona 10 hálf 11 á morgnanna á meðan að Svenni vinnur hér heima til 12. Ég byrja daginn alltaf á langri og góðri sturtu og nýt þess sko í botn ef ske kynni að dag einn verði það meira mál að geta skroppið svona frá.
Freyr tekur sér oftast hátt í klukkutíma til að drekka orðið, tæmir vandlega bæði brjóstinn ef hann er í stuði og steinrotast eftir það. Við treystum því á að hann muni dafna vel og ná fljótlega fæðingarþyngd sinni þannig að hann getir farið í smá göngutúra þegar vel viðrar.
Við vorum einmitt að panta okkur bason roma vagn í gær þannig að við erum tilbúin. Pöntuðum líka dúnkerrupoka frá Reyni langafa.
Freyr er sko búinn að fá fullt af flottum gjöfum, við förum í pósthúsið á hverjum degi, ekkert smá gaman. Við viljum þakka kærlega fyrir okkur en strákurinn fer að eiga góða blöndu af fötum fyrir allt fyrsta árið sitt.
Á morgun ætlar hún Hanna Sigga að koma og vigta pjakkinn, veit svo sem ekki hvað hún gerir meira, kannski er hún til í að skúra gólfið fyrir okkur.
jæja læt þetta duga í bil. Takk fyrir alla kveðjurnar og innlitin.

28. janúar 2007

Og hvað á barnið að heita ???

Eftir talsverðar bollaleggingar þá fannst okkur nafnið Freyr henta heimalingnum ágætlega. Hann mun heita fullu nafni Freyr Sveinsson Zoëga.
Nafninu tekur hann bara vel, er alveg sérlega stilltur og prúður þessa dagana, nú er hann farinn að taka hraustlega til matar síns af sérréttum "mjólkurbús mömmu" og rétt rumskar á nóttunni til að belgja sig út. Pabbinn þykir standa sig nokkuð vel í bleijuskiptum og naflahreinsunum - já og svo stendur handboltalandsliðið sig líka ágætlega í að hafa ofan fyrir foreldrunum í orlofinu.
Freyr litli var 2ja tíma gamall þegar hann horfði (reyndar sofandi) á sinn fyrsta handboltaleik (Ísland-Frakkland) og þykir ljóst að þessi nýji stuðningsmaður var það sem liðið vantaði.

25. janúar 2007

Komin heim með heimalinginn.

Nenntum ekki að hanga lengur á fæðingardeildinni og komum heim í gær. Það fer auðvitað dável um okkur í fína húsinu og sýnir sonurinn öllum fínu ljósunum sérlegan áhuga (pabbanum til mikillar ánægju). Sá stutti er bara nokkuð vær og sefur mikið (síst reyndar á nóttunni).

Hér eru svo nokkrar myndir í viðbót:

22. janúar 2007

Heimalingurinn

Í dag fjölgaði um einn íbúa á Þiljuvöllum 9 - strákur fæddist laust fyrir klukkan 15 að staðartíma. Fæðingin gekk bara nokkuð vel miðað við fyrsta barn (segja þeir sem hafa vit á því). Stráksi mældist 3,9kg (tæpar 16 merkur) og 51cm. Móður og barni heilsast vel - föðurnum heilsast líka ágætlega, takk fyrir að spyrja ;-)

Myndir: