18. maí 2008

Húsbóndinn vestur um haf

Húsbóndinn er nú staddur í Washington DC og fer á námskeið eftir helgi á vegum vinnunnar.
Laugardaginn notaði hann vel til að kaupa myndavél og fara í smá myndatökutúr um Washington.

Myndaalbúm er komið á sinn stað
Svenni í Washington DC og nágrenni

12. apríl 2008

Hvenær kemur vor?

Nú er langt um liðið síðan síðast, húsfrúin hefur líka tollað heima óvenju lengi. Við virðumst vera svo upptekin við að horfa á sjónvarpið þegar við erum bæði heima að ekki gefst tími fyrir blogg. Húsbóndinn kann aftur á móti ekki að kveikja sjálfur á sjónvarpinu þannig að þá er úr vöndu að ráða þegar frúin fer að heiman. Nú eru allir heima en áhugi á söngvakeppni framhaldsskólanna er misjafn.

Glöggir lesendur hafa e.t.v. rekið augun í nýtt myndaalbúm sem datt inn á dögunum. Þar má t.d. sjá að við höfum
farið á skíði
búið til snjóhús
skoðað furðudýrið á Skorrastað, og hest
dregið ömmur og frænkur á skíði
borðað páskaegg
fengið gesti
og margt fleira.
Freyr hefur verið nokkuð duglegur að ná sér í pestir, síðustu viku hefur hann verið með hita og eyrnabólgu en er kominn á pensilín og fer þetta vonandi að lagast ... og svo fer heilsufarið vonandi almennt batnandi með hækkandi sól og vori í lofti (sem lætur nú eitthvað bíða sér).

Aprílferð húsbóndans til New York ferð breyttist í maíferð til Reston, Virginia (sem er Garðabær Washington DC). Þar á að reyna að kenna honum við annan mann á þau tæki og tól sem hann hefur verið að nota í vinnunni síðust 4 ár - tími kominn til. Google Earth hefur verið notað til hins ítrasta til að kynnast aðstæðum á svæðinu og er búið að finna nákvæma loftmynd af námskeiðsstaðnum, hótelinu (ásamt sundlauginni og pottinum), hvíta húsinu og fleira tilheyrandi. Eins er búið að spotta út næstu Starbucks kaffihús, eþíópískan veitingastað (er ekki líklegt að maður fari svangur út af svoleiðis stað?) og ýmislegt fleira misgagnlegt - hápunktur ferðarinnar hingað til (að því gefnu að enn er mánuður í hana) er væntanleg skoðunarferð á Segway (tm) um Washington DC, meiri snilld fyrirfinnst varla!

Þau undur og stórmerki gerðust hér á dögunum að handriðið á stigapallinn barst í hús, ekki nema rúmum 13 mánuðum eftir að það var pantað, Dalkó með skjóta og góða þjónustu að vanda NNNNNNNNNNNOOOOOOOOOOOOOOOTTTTTTTTTTTTTTTT!!!!!!!!!!!!!!! Húsbóndinn hefur verið að brasa við það í dag að koma þessu á sinn stað, búið er að líma fótstykkið niður og nú verður spennandi að sjá hvort límkítti er nógu öflugt til að halda þessu.

Jæja, þá er söngvakeppnin búin og víst best að fara að hætta þessu bloggveseni, bölvað svínarí að Bændaskólinn skyldi ekki vinna þetta - þeir fengu ekki einu sinni verðlaun... andskotans Reykjavíkurpakk sem stjórnar þessu - ég legg til að landsbyggðin segi sig úr þessari keppni og haldi sína eigin!

1. mars 2008

Einir heima

Hrönn er víst í Reykjavík og þá treysta dyggir lesendur á það að hér birtist eitthvað. Ég skal reyna að verða við þeim óskum.

Hrönn er búinn að vera í Reykjavík síðan á miðvikudagskvöld í námslotu og gistir þar hjá háttvirtum og virðulegum fjórða þingmanni Reykjavíkurkjördæmis norður. Mér skilst að ferðin hafi að venju verið notuð í búðarferðir og bíó þegar skóladegi lýkur.

Guðlaug dagmamma segist taka eftir að Freyr hegði sér öðruvísi hjá henni þegar mamman er ekki heima, þá eltir hann Guðlaugu hvert sem hún fer - ekki tek ég eftir miklum breytingum á honum nema að hann virðist sofa betur, lengur og í eigin rúmi þegar hann á ekki von á mömmu sinni. Hann svaf t.d. í fyrsta skipti í langan tíma alla nóttina í sínu rúmi í fyrrinótt.
Á fimmtudaginn komu Óla ömmusystir og Tinna frænka og léku við Frey meðan pabbinn kláraði vinnudaginn á heimaskrifstofunni - það var svaka fjör og tók þónokkra stund að róa drenginn niður eftir að frænkunum var hleypt heim.
Hér fór allt á kaf í snjó aftur á aðfararnótt fimmtudags og þurfti ég að moka mig út í gegnum í ruðninginn af götunni eins og fleiri. Yfirleitt skefur af bílastæðinu hérna hjá okkur og það stendur autt en ruðningurinn af götunni er himinhár, nú snjóaði samt í það litlum vindi að snjórinn fór ekkert í burtu. Við eigum sem betur fer góða nágranna sem eru duglegir að nota tækin sín til að moka bílastæðið - stæðið okkar fær þá stundum að fljóta með, a.m.k. göturuðningurinn.

Við erum búin að panta okkur sumarhús í Frakklandi í sumar í eina viku. Ætlum að vera þar ásamt Tengdó, Hörpu, Gunnari og strákunum. Svo er stefnan að keyra eitthvað um Frakkland og jafnvel finna okkur sumarhús annars staðar. Meiningin er að vera rúmar 2 vikur, seinni hluta júní.

Ég er svo að gæla við það að skella mér í vikuferð til New York í apríl, á námskeið - en það er ekki fullfrágengið ennþá. Ég verð nú að fá að stinga af líka fyrst frúin tollir aldrei heima ;-)

En já ætli það sé ekki best að fara að ferðbúast, erum að fara að sækja Hrönn í flug í Héraðið. Ég þarf líka aðeins að komast í Húsasmiðjuna - ég er nefnilega nokkuð duglegur við að kaupa mér tæki, tól og byggingarefni sem mér finnst þurfa til að klára fráganginn á húsinu - en ég er ekki alveg eins duglegur að nota þetta allt saman. Nú er bílskúrinn og nánast tvo herbergi full af byggingarvörum sem á eftir að koma á sinn stað. Þetta hlýtur að hafast að lokum.

22. febrúar 2008

Afmælismyndavídeó og nýjar myndir



Þá er kéllingin stungin af enn eina ferðina í námsferð, og við kallarnir erum skildir eftir heima... og þá er loksins bloggað, reyndar er þetta svona næturblogg eins og hjá Össuri en ég ætla ekkert að reyna að feta í fótspor hans í efnistökum og orðaleikjum.

Ég ætlaði nú bara aðallega að tilkynna nýtt myndaalbúm, 12-13 mánaða og svo fylgir þessari færslu smá vídeóstubbur úr afmælismyndunum.

12 til 13 mánaða


Freyr veiktist fljótlega eftir afmælið, fékk fyrst ælupest og niðurgang og svo hita í kjölfarið á því. Ætli þetta hafi ekki tekið hátt í 2 vikur allt í allt. Amma hans kom frá Vopnafirði og hjálpaði til við pössun svo þetta gekk allt upp að lokum.
En nú er Freyr eitthvað farinn að kvarta yfir þessu næturbrölti mínu, þannig að það er sennilega réttast að láta þetta duga í bili.

24. janúar 2008

Það eru komnar inn afmælismyndir

Eins árs


Já, þá er drengurinn orðinn eins árs.

Við héldum 2 veislur, á sunnudaginn fyrir börnin og svo á þriðjudaginn, afmælisdaginn sjálfan fyrir ömmur og afa. Þetta heppnaðist bara í alla staði vel, drengurinn fékk fullt af góðum gjöfum og ég held að flestir hafi fengið nægju sína af bakkelsi.

Annars er það helst að frétta af stráknum að nú æfir hann sig stíft að ganga og er bara að verða nokkuð lunkinn við það. Hann er farinn að velja það frekar að labba styttri leiðir en að skríða svo þetta er allt að koma. 2 tennur bættust við rétt tímanlega fyrir afmælið svo nú eru þær orðnar 4, 2 í neðri góm og 2 í efri góm.

Í kvöld ætlar mamman svo að stinga okkur feðga af til að fara í starfsþjálfun til Hafnar í Hornafirði ! Þetta er hluti af náms- og starfsráðgjafanáminu en mér finnst þetta alveg ótrúlegt að hægt sé að bjóða mönnum upp á þetta, ég sé fyrir mér að Reykvíkingar myndu láta bjóða sér að fara til Akureyrar í starfsþjálfun! En það virðist vera frekar fátæklegt úrval hér fyrir austan af fyrirtækjum og/eða stofnunum sem geta tekið að sér nema í þessu fagi. En við fáum nú vonandi húsmóðurina aftur heim annað kvöld.

Í síðustu viku var dagmömmuvesen á okkur, dóttir dagmömmunnar veiktist og var "sjoppunni" lokað á meðan, við náðum þó að greiða úr því með hjálp fjölskyldu og vina. Þessa vikuna er Freyr svo búinn að vera til 4 á daginn hjá dagmömmu og virðist það ganga ágætlega.

Setti inn myndir um daginn frá "stúdíó"myndatöku af Frey í desember, það raðast aðeins aftar en nýjustu myndirnar í röðina en eru margar hverjar alveg þess virði að skoða þær.

10. janúar 2008

Húskofarnir í Reykjavík

... og fyrst ég er kominn í gírinn, 3 blogg á einu kvöldi ættu að halda dyggum lesendum í losti næstu mánuði þannig að það liggur ekkert á næsta skammti.

Óskaplega geta menn verið viðkvæmir fyrir þessum húskofum á Laugaveginum, mér virðast þetta bara vera gamlir hjallar sem eru engum til gagns og eru bara fyrir. BDSM bandalagið (Björn, Dagur, Svandís, Margrét) sem ræður víst ríkjum í borginni þessa stundina, ætlaði að fá að flytja þetta í burtu og byggja þetta upp annars staðar það er nú jafnvel enn verra en að láta þetta standa á sínum stað.
Auðvitað verður að finna milliveg á milli þess að rífa allt og vernda allt en ég held að það sem höfuðborgin okkar þarfnast sé nútímalegri miðbær. Loka laugaveginum frá Snorrabraut og niðurúr og gera að göngugötu, rífa hjallana og byggja ný smekkleg hús (ekki of há) sem standast byggingareglugerðir þessarar aldar - eða a.m.k. þeirrar síðustu.

... en ég hef svo sem ekkert vit á þessu.

Facebook og Myspace

Hef verið spurður að því af hverju ég sé horfinn af Facebook.
Við því er einfalt svar. Fyrir nokkru bauð mér maður nokkur í "my extended family" að vera vinur sinn á facebook, jú jú mér líkaði svo sem ágætlega við þann mann ... þá !
Svo vatt þetta uppá sig, vinir vina manns vildu vera vinir manns, ættingjar hentu í mann rollum, ég gaf einhverjum mörgæs ... allt svakalega spennandi ... eða þannig. Ég lagði nú ekkert sérstaklega mikið upp úr því að hanna prófílinn minn en smám saman hlóðst inn á hann allskonar svona rusl um fólk potandi hvort í annað og kastandi rollum. Fljótt varð þetta svo yfirþyrmandi að ég fékk magaverk og hjartsláttartruflanir í hvert skipti sem ég slysaðist til að opna þessa hörmung.
Ég ætlaði að tilnefna facebook sem ljótasta og óþarfasta fyrirbæri í netheimum en í kvöld rambaði ég inn á myspace síðu ... úff púff ... fésbókin leit bara út fyrir að vera mjög fallegt og gagnlegt tól í þeim samanburði.

HEFUR FÓLK VIRKILEGA EKKERT ÞARFARA AÐ GERA ???????

Ég vona að vinir mínir og ættingjar sem reynt hafa að henda í mig rollum og öðru lauslegu í trausti þess að það geti talist góð leið til að "vera í sambandi" fyrirgefi mér þetta óþol á tengslasíðum, en ég er búinn að komast að því að þær eru ekki minn tebolli.

Vinsamlegast ekki pota í mig !

Kveðja Fýlupokinn Sv1

Næstum farinn að ganga

Freyr æfir sig nú stíft að ganga og er bara orðinn nokkuð góður - dettur ekki oft en fer svo sem ekki langar leiðir - en þó kannski 5-10 skref í einu.

Við feðgar erum einir heima, sendum mömmuna í skóla til Reykjavíkur þar sem hún lærir ábyggilega eitthvað gagnlegt. Okkur kemur ágætlega saman þó svo að Freyr virðist nú sakna mömmu sinnar svolítið. Mamman skilar sér svo vonandi aftur um helgina.

Bíllinn okkar er búinn að vera að stríða okkur, tók upp á því á milli jóla og nýárs að fara að ganga illa. Ég hökti á honum upp í Hérað á þriðjudaginn á verkstæði og þóttust þeir vera búnir að finna það út í dag að vandamálið hefði verið bilað háspennukefli. Ég vona að það hafi verið málið og hann verði betri en nýr eftir þetta.

Setti inn slatta af nýjum myndum í gærkvöldi, njótið vel.

2. janúar 2008

Gleðilegt ár 2008

Jæja þá er komið árið 2008. Skrítið hvernig tíminn líður alltaf hraðar og hraðar, nauðsynlegt að gera eitthvað í þessu! Við höfðum það nú alveg ágætt yfir hátíðarnar að öllu jöfnu en veikindi settu samt strik í reikninginn. Við veiktumst öll viku fyrir jól, fengum ælupest ojbara. Svenni byrjaði nóttina áður en ég átti að mæta í próf, ég fór í prófið daginn eftir ákveðinn í að smitast amk ekki fyrr en eftir að því væri lokið. Það var eins og við manninn mælt um leið og ég kom út úr prófinu kl. fjögur, fór mér að líða einkennilega og svo um kvöldmatarleytið var ég orðin veik. Freyr ældi svo daginn eftir og fékk hita í kjölfarið. Þeir feðgar jöfnuðu sig ekkert almennilega eftir þetta, þót ekki með ælupest sem betur fer. Svenni var tussulegur alla hátíðina og Freyr var með hósta og hor en þó hress. Þeir eru fyrst að losna við þetta núna á nýju ári.
Harpa, Gunnar, Birkir og Kári komu fyrir jól og fóru fyrir áramót. Það var ofsalega gaman að fá þau, ég vildi ekki án þeirra vera um jólin. Freyr varð strax stórhrifin af frændum sínum, skreið til þeirra og dundaði sér við hliðiná þeim, fylgdist með þeim og lék sér við þá. Við vissum bara ekki af drengnum þegar þeir voru saman, en annars er hann ekkert of duglegur að dunda sér svona þegar hann er bara með okkur.
Við vorum dugleg að skjóta upp um áramótin, keyptum dýrar og flottar bombur, þar sem Svenni fékk þær á helmingsafslætti. Freyr var ekki vitund hræddur, kom með okkur á brennu en sofnaði svo þegar við komum heim. Hann rumskaði ekkert í látunum á miðnætti.
Næsta önn á eftir að vera strembin og mikið púsluspil að láta þetta ganga upp. Freyr verður áfram hjá Guðlaugu dagmömmu til kl 14 á daginn en hún er ekki lengur. Ég Hrönn verð í 12 einingum í háskólanum ásamt 100% vinnu og Svenni verður í 100% vinnu, svo er bara að láta þetta ganga upp!!! Skipulag hlýtur að vera lykilorð í þessu tilfelli. Ætli ég verði ekki að skorast undan því að þjálfa blak eins og ég gerði fyrir áramót, læt nægja að æfa sjálf og vera í Fræðsluráði.
Nú styttist óðum í 1 árs afmæli Freys. Það verður forvitnilegt að vita hvort hann verði farinn að ganga. Hann hefur fínt jafnvægi enda búinn að ganga með lengi. Hann er aðeins að æfa sig að sleppa sér og standa sjálfur og svo hefur hann tekið tvö skref. Hann er hins vegar frekar hræddur við þetta og lippast oftast niður ef hann skynjar að við ætlum að sleppa takinu. Annars er allt gott að frétta af stráknum. Hann er farinn að skilja ýmislegt, miklu meira en við höldum.Flest tjáskiptin hans fara þó fram í orðinu ,,dudda". Hann þekki orðin þegar við segjum þau, hugsar sig vel um og endurtekur svo ,,dudda". Ég held að hann heyri þetta orð öðruvísi en við og haldi að hann sé að segja þetta bara alveg rétt.
En jæja ég ætla að láta þetta duga í bili og jú við hljótum að hafa það af að setja inn myndir bráðlega.
bestu kveðjur

5. nóvember 2007

Farinn að standa upp og komin tönn

Um helgina lærði Freyr að standa upp og nú hífir hann sig á fætur og gengur meðfram eins og herforingi. Í dag gægðist svo fyrsta tönnin upp úr gómnum.
Í síðustu viku fór Freyr í fyrsta skipti á snjóþotu, enda fór allt á "kaf" í snjó hérna eitt kvöldið, honum þótti það ekki leiðinlegt - takk fyrir lánið á þotunni Auður.

Framkvæmdir í húsinu hafa nú rumskað af dvalanum, búið er að klára að gifsklæða þvottahúsið, sparsla og mála. Hálft gólfið hefur verið flísalagt og þegar búið verður að fúga verður innréttingin sett upp. Við eigum svo von á því að restin af handriðinu á stigann komi í mánuðinum.

Við erum að fara suður núna á miðvikudaginn, námslota hjá Hrönn. Við feðgar hyggjumst eyða okkar tíma í borginni í Europris - ég reikna þó ekki með að móðirin samþykki það.

Nýjar myndir koma fljótlega.

15. október 2007

Forbrydelsen og skrið

Jæja ég er í vinnunni og ætla að stelast til að blogga svolítið, auðvitað nóg að gera en ég nenni því bara ekki. Horfði á fyrsta þáttinn af Forbrydelsen í gær sem Jóhanna hefur talað svolítið um. Eftir þáttinn velti ég því svolítið fyrir mér hvað það er sem gerir það að dönsku þættirnir eru svona miklu betri en þeir amerísku og jafnvel bresku. Niðurstaðan eftir þennan þátt var að hann er í fyrsta lagi miklu betur leikinn, persónurnar eru eðlilegar og manneskjulegar. Fókusinn á fórnarlömbinn er meiri þannig að maður fær strax samúð með þeim sem mér finnst nauðsynlegt til að geta lifað mig inní þætti. Söguþráðurinn er hins vegar ekkert endilega frábrugðinn en hann er bara alls ekkert aðalatriðið. Ég legg til að Danir taki Kanana í smá kennslustund.
Freyr er skyndilega kominn á fullt. Jæja ég segi ekki að hann sé hraðskreiður en jú það kemur fyrir að hann er skyndilega horfinn fyrir horn. Hingað til hefur hann farið fetið á rassinum og ekki farið af stað nema að takmarkið sé í mesta lagi í metersfjarlægð. Núna er hann hins vegar orðinn stórhuga og leggur af stað í langferðir frá stofunni og inn í eldhús og rannsakar allt á leiðinni. Það heyrðust því hamarshögg hjá okkur í gærkvöldi, Svenni festi geisladiskahilluna við vegginn ásamt því að binda rammann stóra við vegginn. Hlutir sem okkur þykir vænt um og eru brothættir eru komnir ofarlega en í staðinn höfum við raðað litlu dóti í gluggakistuna. það er sem sagt hafinn nýr kafli í okkar lífi ;-)
Ennþá bólar ekkert á tönnum en gómurinn er allur hrufóttur og hvítur.

Best að fara að vinna
Kveðja Hrönn

22. september 2007

Hvatvísi

Ég (Hrönn) fór á ráðstefnu/námskeið um ADHD (athyglisbrest með ofvirkni) á fimmtudag og föstudag. Það var mjög skemmtilegt og gagnlegt fannst mér. Ofsalega liggur rígurinn milli Fjarðabyggðar/Neskaupstaðar og Egilsstaðar djúpt í okkur. Einhver konuálka fór skyndilega að tala um hvað það væri nú lítið aðhald og að börnin valsa bara um á heimavistinni í Neskaupstað og það væri nú ekki gott fyrir blessuðu ofvirku krakkana. Ég sat nú á mér að mestu en lét hana bara að vita að það væri nú umsjónarmanneskja þarna hjá okkur eins og á Egilsstöðum en gamall Norðfirðingur búsettur á Eskifirði gat ekki setið á sér og baunaði á hana á móti að ekki væri vistin á Egilsstöðum mikið öðruvísi. Stemmningin í kaffihléinu var svolítið undarleg, allir að tala um þetta og konuálkan stóð þarna rauð í framan. Mér finnst ótrúlegt hvað fullorðið fólk á erfitt með að sjá hvað er viðeigandi að tala um hvar, fleiri voru t.d. að koma með einhver persónuleg dæmi um son sinn sem fékk ekki nægilega aðstoð bla bla. Afhverju getur fólk ekki verið faglegra og talað meira almennt. Hér er ég reyndar með gagnrýni á blogginu mínu en það er í fyrsta skipti og í trausti þessi að þetta fólk sem ég tala um kíkir aldrei hér inn.
Ég er farin að hafa talsverðar áhyggjur af því að ég komist ekkert áfram í vinnunni minni, vegna lítils starfshlutfalls, námslota, starfsþjálfunar hjá Þekkingarnetinu og námskeiða. Úff er eitthvað að myndast við að kalla nýnemana til mín, en verð örugglega að því fram á vor, hef því engan tíma fyrir þá nemendur sem verulega þurfa á aðstoð að halda.
Freyr er hress að vanda, er í vagninum sínum búinn að vera í um 3 klst, hlýtur bara að fara að vakna. Við eigum í smá basli með hann á nóttunni, hann vaknar fulloft (sem getur reyndar verið einkenni ofvirkni en í trausti þess erfðaþáttur skýrir ofvirkni í 80% tilfella, leyfi ég mér að halda að þetta sé eitthvað annað) Síðustu nótt drakk hann reyndar bara einu sinni, en vaknaði oftar og við færðum hann nokkrum sinnum úr sínu herbergi og inn til okkar. Hann er farinn að verða svolítið ómögulegur að sofa hjá, er oftast kominn þverrt og farinn að sparka í andlitið á okkur.
Annars á hann til ótrúlegustu hljóð og svipbrigði, hann smellir, smjattar, fretar og skrækir. Honum finnst mjög gaman að klappa og kann að klappa þannig að það heyrist vel í. Við horfðum saman á spurningarþáttinn útsvar í gær sem Frey fannst hinn skemmtilegasti og klappaði oftar en ekki þegar við átti.

Jæja ætli ég fari ekki bara að ná í guttann.
Baráttukveðjur
Hrönn

21. september 2007

8 mánaða skoðun

Freyr fór í skoðun í morgun, fékk sprautu og var mældur í bak og fyrir
Nú er hann 9,15kg og 71,5 cm.

9. september 2007

Hæfileikamaður

Ég skal aðeins láta heyra í mér, ég veit hvað það er leiðinlegt að fylgjast með bloggsíðum þar sem ekkert gerist langtímum saman. Jú jú við erum nokkuð upptekin þannig séð þótt að námið sé nú ekki almennilega farið að trufla mig ennþá. Vona að þessi önn verði ekkert mjög slæm, fer í starfsþjálfun í Þekkingarnetið sem er staðsett á Egilsstöðum fyrir áramót en veit ekki ennþá hvert ég fer eftir áramót. Það er ofsalega gaman að vera byrjuð að vinna og ég held að við höfum öll haft gott af því að skipta svona deginum á milli okkar. Ég er búin að sannreyna það sem ég vissi að hálf námsráðgjafastaða er bara alls ekki nóg við VA. Vona bara að ég geti sannfært Helgu um að gera hana að amk 75% stöðu. En það hefur samt sem áður verið mjög gaman í vinnunni enda er ég heppin að vera í vinnu sem mér finnst afskaplega skemmtileg takk fyrir.
Jæja nóg um mig. Áslaug vildi vita yfir hvaða hæfileikum Freyr býr yfir núorðið. Hmm látum okkur sjá. Freyr er orðinn afskaplega góður að sitja enda samþykkir hann ekki neinar aðrar stellingar nema þá helst að standa sem er náttúrulega toppurinn. Hann mjakar sér hægt áfram á rassinum nokkra sentimetra í einu og þá aðeins ef hann hefur eitthvað að sækja í seilingafjarlægð. Þetta litla mjak verður nú samt til þess að hann færir sig stundum um jafnvel tvo metra á gólfinu. Gallinn er hins vegar sá að við þurfum að elta hann með púða til að setja fyrir aftan hann því að allt í einu verður hann pirraður og ef enginn tekur hann upp strax þá bara kastar maður sér aftur á bak til að tryggja það að einhver komi, og það getur orðið ansi vont að skella á parketinu.
Freyr getur veifað, klappað og sýnt hvað hann er stór en ekkert endilega eftir pöntun. Hann lítur á ljósið ef hann er spurður hvar það er. Hann segir mamma pabba en þá helst þegar hann er að kvarta. Frey finnst skemmtilegt að gera týndur bö, rúlla bolta á milli, opna og loka örbylgjuofninum, dansa í göngugrindinni, kitla og vera kitlaður og það er ýmislega annað sem kætir hann.
Freyr er sem betur fer engin mannafæla og hefur afskaplega gaman af því þegar fólk veitir honum athygli. Við pabbi hans kíktum á einleikinn "Pabbinn" og amma Sýbillia svæfði hann og passaði á meðan og gekk það svona líka vel. Áðan færðum við rúmið hans í sér herbergi og verður spennandi að sjá hvernig það gengur. Hann vaknar nú ennþá einu sinni á nóttu og einu sinni um morgun til að drekka og stundum þarf aðeins að snudda hann þannig að vonandi höldum við út að fara í næsta herbergi til að sækja drenginn.
Það gengur vel að gefa Frey að borða enda mikill nautnaseggur á ferð. Hann borðar ýmislegt grænmeti t.d. kartöflur, sætar kartöflur, blómkál, gulrætur og jafnvel tómata, en ávextirnir eru í uppáhaldi og þá helst banani en hann lætur nú bjóða sér flestar tegundir. Kjöt hefur ekki mikið farið inn fyrir hans varir enda ekkert spenntur fyrir því. Ennþá fær hann brjóstið nokkrum sinnum á dag og er það alltaf jafn gott.
Nú fer að styttast í að mamma gamla verði þrítug, að hugsa sér! Ætlum við að skreppa norður í sumarbústað um næstu helgi af því tímabili og hitta þar, Auði, Daða og fjölsk, Jónu, Sigga og fjölsk, Hörpu, Gunnar og fjölsk og kannski fleiri, ég hlakka mikið til.
Jæja þessi færsla bætur vonandi að einhverju leyti fyrir langa pásu, spurning hvort við komum myndum bara inn í kvöld.
kær kveðja
Hrönn

3. september 2007

Reykjavíkurferð

Síðustu viku vorum við fjölskyldan í Reykjavík, Hrönn var í staðbundinni námslotu og karlpeningurinn fylgdi með. Við keyrðum suður i einum áfanga og gekk það ótrúlega vel, sem og heimferðin sem einnig var farin í einum áfanga. Freyr virtist bara sætta sig nokkuð vel við þessa meðferð en var samt ósköp feginn að koma heim aftur. Meira síðar (kannski).

4. ágúst 2007

Myndir

Inn eru komnar nýjar myndir. Nú er Verslunarmannahlegin runnin upp og allt fullt af vinum og ættingjum í bænum, alveg geggjað. Held ég bloggi bara síðar.